Í febrúarlok nam stærð gjaldeyriforða Seðlabanka Íslands 800 milljörðum króna. Framtíðarsýn forðans tengist umræðunni um kostnað peningastefnunnar og endurskoðun hennar, sem er stærsta og brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda eftir afnám fjármagnshafta.

Skilgreindur tilgangur forðans er að draga úr skammtímasveiflum í gengi krónunnar. Færa má fyrir því rök að ábatinn af peningastefnunni hafi verið 7,2% hagvöxtur á síðasta ári, verðbólguvæntingar við verðbólgumarkmið, afgangur á ríkissjóði og afgangur á greiðslujöfnuði. En hver hefur kostnaðurinn við þessa stefnu verið?

Svigrúm Seðlabankans til gjaldeyriskaupa til að stemma stigum við væntri gengisstyrkingu krónunnar til lengri tíma litið fer þverrandi, þar sem Seðlabankinn á lítið eftir af innlendum eignum sem hann getur selt til að stýfa gjaldeyriskaupin og peningamagnsáhrif þeirra. Þar að auki er forðahaldið ekki ókeypis. Seðlabankinn ávaxtar forðann til skamms tíma á lágum vöxtum, þar sem erlendir vextir eru lágir og jafnvel neikvæðir. Á sama tíma er forðinn fjármagnaður aðallega með innstæðum á 4,75-5% vöxtum í eigu bankakerfisins og ríkissjóðs í krónum. Fjármögnunarkostnaður forðans skilar því neikvæðri afkomu sem nemur vaxtamuninum milli erlendra eigna og innlendra skulda, sem veltur á tugum milljarða á hverju ári.

Að öðru óbreyttu gæti fjármögnunarkostnaður forðans á núverandi kjörum þurrkað upp eigið fé Seðlabankans á nokkrum mánuðum, eða Seðlabankinn hættir að kaupa gjaldeyri með þeim afleiðingum að krónan fari á hreint flot, gjaldeyrisforðinn verði tilgangslaus og gengið haldi áfram að styrkjast með tilheyrandi skakkaföllum í efnahagslífinu. Í sjálfu sér gæti Seðlabankinn minnkað kostnaðinn við forðahaldið með því að slaka á aðhaldi peningastefnunnar og hefja vaxtalækkunarferil (sem einnig dregur úr styrkingu krónunnar), en þá væri hann að fórna lögboðnu markmiði bankans og verðstöðugleika í landinu.

Stofnun stöðugleikasjóðs

Fræðilega séð gæti gjaldeyrisforðinn stutt við fastgengi eða myntráð. En Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku, telur líklegra að hluti forðans losni af efnahagsreikningi Seðlabankans og renni í stöðugleikasjóð af einhverju tagi.

„Það blasir við að það þarf að endurhugsa forðastýringuna. Í dag er forðinn ávaxtaður til skamms tíma, en skynsamlegra væri að ávaxta hann eða hluta af honum til lengri tíma, t.d. í áhættumeiri eignum á borð við erlend hlutabréf. Þetta mætti gera með núverandi fyrirkomulagi eða í gegnum sérstakan sjóð. Ég hef lagt til að stofnaður yrði stöðugleikasjóður sem fær framlög með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi með stofnframlagi, t.d. hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna sem hægt væri að nýta til að kaupa gjaldeyri af Seðlabankanum og draga úr kostnaðarbyrði gjaldeyrisforðans. Í öðru lagi ætti sjóðurinn að fá framlag úr ríkissjóði þegar vel árar. Í þriðja lagi ætti sjóðurinn að halda utan um tekjur hins opinbera af nýtingu auðlinda landsins og útflutningsgreinum.

Tekjur renna því í sjóðinn þegar vel árar og honum er fjárfest erlendis, en þegar í harðbakkann slær eru fjármunir fluttir heim til að fjármagna uppbyggingu innviða. Krónan styrkist smám saman þegar vel árar og veikist við áföll, og því myndi stöðugleikasjóður jafna gengissveiflur. Sjóðurinn yrði þannig sveiflujafnandi fyrir peningastefnuna, gjaldmiðilinn og ríkisfjármálin, og það ætti að auka svigrúm Seðlabankans til að lækka vexti,“ segir Sigurður.

Sérfræðinganefnd var skipuð í síðasta mánuði af forsætisráðherra og mun nefndin undirbúa löggjöf um stofnun stöðugleikasjóðs sem heldur utan um arð af orkuauðlindum ríkisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .