„Þeir afgreiðslutímar (e. slot) á flugvöllum sem Wow hefur búið yfir geta verið mjög mikilvægir í samkeppni til og frá Íslandi,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlits vegna stöðvunar á rekstri flugfélagsins Wow. „Afgreiðslutímar WOW geta því verið forsenda þess að nýr aðili geti hafið samkeppinshæft áætlunarflug til og frá Keflavíkurflugvelli,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Samkvæmt íslenskum lögum ber Wow að skila öllum leyfum sem félagið hafði til reksturs á Keflavíkurflugvelli. Wow hefur nú þegar skilað inn flugrekstrarleyfi sínu til Samgöngustofu en afgreiðslutímar (slott) félagsins á Keflavíkurflugvelli eru hluti af því leyfi. Ólíkt sumum alþjóðaflugvöllum geta flugfélög hvorki leigt né selt afgreiðslutíma sína á Keflavíkurflugvelli og því eru þau ekki metin til verðmæta í bókum fyrirtækjanna. Ef flugfélögin notar ekki afgreiðslutíma sem því hefur verið úthlutað ber félaginu að skila því aftur inn til ISAVIA.

„Við höfum ekki úthlutað þessu hér innanhús heldur er hefur það verkefni verið í höndum félags í Danmörku," segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA. „Í grunninn er ferlið þannig að flugfélög sækja um „slott“ hjá okkur, við sendum umsóknirnar til Danmörku þar sem þetta félag úthlutar þeim,“ segir hann.