Stuðningsmenn Ólafs Ragnars annars vegar og Þóru Arnórsdóttur hins vegar í forsetakosningunum í sumar mynda andstæða póla í afstöðunni til valda forseta. Meðalkjósandinn virðist styðja ákvörðun Ólafs í Icesvae málinu og telja að forseti eigi að fara að óskum kjósenda um synjun laga, en ekki synja lögum á grundvelli eigin mats.

Þetta eru niðurstöður könnunar Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors við Háskóla Íslands, Indriða H. Indriðasonar, dósents við Kaliforníuháskóla og Viktors Orra Valgarðssonar, meistaranema við Háskóla Íslands. Þremeningarnir rituðu greinina „Hvað voru kjósendur að hugsa? Forsetakosningar á Íslandi 2012“ þar sem fjallað er um áhrifaþætti í forsetakosningum á Íslandi á grundvelli könnunar sem gerð var í aðdraganda kosninganna síðasta sumar.

Samkvæmt könnuninni er talið líklegt að afstaða kjósenda til ríkisstjórnarinnar hafi verið sterkasti áhrifavaldurinn á niðurstöður kosninganna. „Í ljósi þeirra átaka sem orðið hafa milli forsetans og ríkisstjórnarinnar má leiða líkur að því að afstaða til ríkisstjórnar hafi verið sterkur áhrifaþáttur í kosningunum en ríkisstjórnin stóð á sama tíma mjög höllum fæti í skoðanakönnunum,“ segir í greininni. „Um 67% stuðningsmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hugðust kjósa Ólaf Ragnar Grímsson en 69% stuðningsmanna Samfylkingar og Vinstri-grænna Þóru Arnórsdóttur.“