*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Fólk 26. apríl 2020 19:01

„Hvaða lit má bjóða þér?“

Inga María Backman, nýr sérfræðingur hjá Origo, móðgaðist svo við spurningu í tölvuverslun að hún varð verslunarstjóri þar.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr sérfræðingur í öryggis- og skýjalausnum hjá Origo, fékk spurningu í tölvuverslun sem hafði úrslitaáhrif á starfsferilinn.
Gígja Einarsdóttir

„Það er gaman að byrja að vinna hér hjá Origo en á sama tíma sérstakt á þessum Covid tímum, því ég þarf að treysta algerlega á tæknina sem við erum einmitt að bjóða, því hingað til hef ég ekki hitt nema örfáa samstarfsaðila í eigin persónu. Það hafa þó allir tekið mér opnum örmum og verið hrikalega hjálpsamir,“ segir Inga María Backman, nýr sérfræðingur í skýja- og öryggislausnum hjá Origo.

„Mitt hlutverk er ráðgjöf, til dæmis einmitt að aðstoða fyrirtæki við að koma sér upp fjarfundarbúnaði, en ég er að koma til Origo frá Advania eftir árshlé í Svíþjóð þar sem ég var að skrifa mastersritgerðina mína í verkfræði sem ég er að klára í vor. Ástæðan fyrir því að ég fór að vinna hjá ESJ, sem varð að Advania, er kannski svolítið skemmtileg saga því ég lendi í því þegar ég fór að kaupa tölvu í upphafi bachelor námsins að það er tekið á móti mér eins og ég hafi ekkert vit í kollinum, væri bara lítil ljóshærð stelpa.

Það fyrsta sem karlkyns starfsmaðurinn sagði við mig var: „Hvaða lit má bjóða þér?“ Ég varð svo móðguð að ég sæki um og fæ verslunarstjórastöðu þarna eftir námið því ég vildi snúa þessu viðhorfi við og það hefur heldur betur breyst, enda erum við stelpur bara mjög góðar í tækni.“

Sambýlismaður Ingu Maríu er Danny Gilbert verkfræðingur, en utan vinnunnar hefur hún mörg járn í eldinum. Þar á meðal er hún einn eigenda veitingastaðarins Matur og drykkur sem systir hennar, Elma Backman, rekur í húsnæði Sögusafnsins á Granda sem foreldrar þeirra reka.

„Við Sessý Magnúsdóttir, söngkona og bachata kennari, höfum svo verið að taka íslensk þjóðlög fyrir ferðamenn, en ég er píanóleikari, með sjöunda stig á píanó og svo get ég glamrað svolítið á gítar og hef gaman af því að syngja. Ég er mikið á snjóbrettum á veturna og svo er ég allt árið að dansa mikið. Ég var Íslandsmeistari í samkvæmisdansi þegar ég var lítil, hætti svo í nokkur ár en ég fann salsað aftur eftir að ég átti strákinn minn. Hann er nú tíu ára og við brösum mikið saman, hjólum og tökum göngur og legg ég áherslu að eyða tíma með honum,“ segir Inga María sem kennir dans hjá Salsa Iceland.

„Ég hlakka gríðarlega til að geta farið að dansa með fólki aftur, en tæknibyltingin hefur einnig verið að umbylta dansheiminum, þar sem fólk hefur nú verið að taka nettíma í dansi, og verið gríðarleg aukning í því miðað við þá sem hafa verið að taka skrefið og mæta á námskeið. Vonandi mæta þau á dansgólfið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.