Á undanförnum misserum hefur komum ferðamanna fjölgað jafnt og þétt til Íslands og áhugi þeirra á hvalaskoðun og skemmtisiglingum frá Reykjavíkurhöfn aukist umtalsvert.  Hvalaskoðunarfyrirtækið Life of Whales (Hvalalíf ehf), sem starfað hefur í rúm 3 ár í Reykjavík, hefur nú fest kaup á stóru farþegaskipi sem verður fyrst og fremst notað í hvalaskoðunarferðir.

Skipið er það stærsta sem tekið hefur verið í slíka notkun hérlendis og samkvæmt tilkynningu félagsins mun það marka tímamót fyrir ferðamenn sem leggja leið sína í hvalaskoðun. Hefur það fengið nafnið Aandrea og getur tekið allt að 240 manns um borð. Stærð þess er 34 metrar á lengd og um 8 metrar á breidd.

,,Skipið Andrea er hið glæsilegasta með stílhreinu yfirbragði, góðum sölum, 5 salernum, stórum og löngum gluggum á báðum hæðum og miklu útsýnisrými á þilfari skipsins. Mögulegt verður að nýta skipið undir veislur, ýmsar uppákomur, árshátíðir, skemmtisiglingar o.fl.," segir í tilkynningu.

Skipið mun liggja við suðurbugt í Reykjavíkurhöfn.