Hvalaskoðun á Húsavík fer vel af stað þetta árið. Byrjað var á ferðunum í mars, sem er talsvert fyrr en tíðkast hefur, og aðsókn í ferðirnar er mikil. „Sumarið fer mjög vel af stað. Í apríl var til dæmis um 130% aukning milli ára svo þetta lofar góðu.“ Segir Birna Lind Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Norðursiglingar. Norðursigling er eitt þriggja hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík, auk Gentle Giants og Sölku hvalaskoðun. Birna segir nægan markað fyrir þrjú hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík, vegna mikils fjölda ferðamanna.

Samkvæmt Birnu var síðasta sumar það besta í hvalaskoðun á Húsavík frá upphafi en ef marka má eftirspurn og álag þá mun 2014 verða metár.

Nýverið tóku hvalaskoðunarfyrirtækin höndum saman, auk fleiri ferðaþjónustufyrirtækja á Húsavík, í því að markaðssetja staðinn sem höfuðstað hvalaskoðunar á Íslandi. Fram kemur á vef Norðursiglingar að samvinna milli fyrirtækjanna muni skila fleiri gestum í bæinn. Talið er mikilvægt að markaðssetja Húsavík sem hvalaskoðunarstað en á Húsavík er eina hvalasafn landsins. Þá hefur rannsóknarsetur Háskóla Íslands, sem stundar rannsóknir á hvölum, aðsetur þar.