Stefnt er að opnun hvalasýningarinnar á Fiskislóð í lok febrúar en þetta mun vera stærsta sýning sinnar tegundar í Evrópu. Á sýningunni verða 23 hvalalíkön í fullri stærð á 1.700 fermetrum. Til stóð að opna sýninguna í haust en þá kom upp bruni sem seinkaði opnun sýningarinnar.

Fjárfestingarsjóðurinn Icelandic Tourism Fund stendur á bak við sýninguna ásamt Herði Bender. Landsbréf áttu frumkvæði að stofnun fjárfestingarsjóðsins.

Helgi Júlíusson, sjóðsstjóri hjá Landsbréfum, segir framkvæmdum á Fiskislóð miða vel.

„Vinnan er nú á lokametrunum og það er verið að stefna á opnun í lok febrúar, þó að dagsetningin hafi ekki verið ákveðin," segir Helgi. „Þetta verður stærsta hvalasýning í Evrópu og sú eina sinnar tegundar á Íslandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .