Norðursigling og Samkaup, sem reka verslanirnar Nettó og Krambúðina á Húsavík, hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf í markaðssetningu Húsavíkur sem hvalamiðstöðvar á Íslandi. Hluti samkomulagsins felur það í sér að hvalkjöt verður ekki selt í þessum verslunum.

Gústaf Gústafsson, markaðs- og kynningarstjóri Norðursiglingar, segir viljayfirlýsinguna styrkja slagorðið „Húsavík – the Whale Capital of Iceland“ sem notað hefur verið um árabil. „Hvalveiðar og sala á hvalaafurðum hefur verið í algerri andstöðu við stefnu Norðursiglingar. Það er því táknrænt að einmitt hér á Húsavík sé hvalkjöt tekið úr sölu í verslunum.“

Mikill uppgangur er í starfsemi Norðursiglingar. Markvisst er unnið að því að ljúka endurbyggingu gamals eikarbáts sem tekinn verður í notkun 1. júlí. Þetta verður níunda skipið í flota Norðursiglingar og jafnframt umhverfisvænasta hvalaskoðunarskip veraldar, að fullu rafknúið. Tíunda skipið er svo nýkomið til Húsavíkur og hefur hlotið nafnið Sæborg ÞH.