Hvalur hf. hagnaðist um 890 milljónir eftir skatta á síðasta fjárhagsári samanborið við 3,5 milljarða hagnað á fjárhagsárinu 2021.

Tekjur fé­lagsins námu tæp­lega 1,4 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári sem lauk 30. september 2022. Til samanburðar námu tekjur félagsins 4,2 milljörðum ári áður en munurinn skýrist að stærstum hluta af sölu Hvals á eignarhlut sínum í Origo árið 2021.

Eignir fé­lagsins voru bókfærðar á 25,7 milljarða króna og eigið fé á 22,8 milljarða í lok september síðastliðnum. Eigin­fjár­hlut­fall er 89%.

Greiða út milljarð í arð

Stjórn fé­lagsins leggur til að greiddur verði arður að fjár­hæð 1 milljarður til hlut­hafa á árinu 2023. Til samanburðar greiddi félagið út 1,5 milljarða árið vegna fjárhagsársins 2021.

Fisk­veiða­hluta­fé­lagið Venus, sem er í eigu ­syst­kinanna Birnu Lofts­dóttur og Kristjáns Lofts­sonar, á stærstan eignar­hlut í Hval hf. Sam­tals 42,33 %. Kristján á svo 11,37% per­sónu­lega að auki.

Í skýrslu stjórnar segir að helstu breytingar á rekstri og fjár­hag fé­lagsins milli ára eru þær að tekjur af eignar­hlutum í öðrum fé­lögum lækka en á fyrra ári voru tekju­færðar 2.097.886.379 kr. sem voru að mestu leyti vegna sölu á eignar­hlutum í Origo hf.

Tekjur af sölu hvala­af­urða lækka einnig milli ára en lítið var til af birgðum þar sem ekki hefur verið veiddur hvalur síðast liðin þrjú ár.

Á rekstrar­árinu voru stundaðar hval­veiðar og því breytast fjár­hæðir í rekstrar­reikningi veru­lega milli ára er varðar þann lið.

Sé litið til vaxta­tekna þá breytast þær úr já­kvæðri fjár­hæð á fyrra ári 707.148.063 kr. yfir í nei­kvæða fjár­hæð 393.429.148 kr. en það skýrist af virðis­lækkun í er­lendum sjóðum sem fé­lagið átti hluti í en á fyrri árum hafði verð­mæti þeirra aukist veru­lega, segir í skýrslu stjórnar.

Stærstu hluthafar Hvals hf.

Hlut­hafi Nafn­verð Eignar­hlutur
Fisk­veiða­hluta­fé­lagið Venus 61.120.293 42,33%.
Kristján Lofts­son 16.412.230 11,37%.
Hall­dór Teits­son 8.994.613 6,23%.
Guð­rún Helga Teits­dóttir 7.994.613 5,54%.
Skipa­bryggja ehf. 6.998.400 4,85%.
HHall Invest 4.665.600 3,23%.
Ágúst Már Grön­dal 4.494.525 3,11%
Guð­jón Helgi Egils­son 2.645.993 1,83%
Guð­rún Sveins­dóttir 2.566.280 1,78%
DB. Anna Kristjáns­dóttir 2.566.080 1,78%
Aðrir hlut­hafar 25.925.272 17,86%.
Eigin hlutir 129.337 0,09%.