*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 6. ágúst 2015 11:10

Hvalur hagnaðist um þrjá milljarða

Óbeinn eignarhlutur Hvals hf. í HB Granda skilaði fyrirtækinu tekjum að fjárhæð 3,2 milljarðar króna.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Hagnaður Hvals hf. nam rúmlega þremur milljörðum króna á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins, en það er nokkru meira en ári fyrr þegar hagnaðurinn nam tæpum 2,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Hvals.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu í heild tæplega 4,3 milljörðum króna á árinu, um 900 milljónum meira en ári fyrr. Þar telja mest tekjur af eignarhlut Hvals í Vogun hf., sem er stærsti hluthafi HB Granda, en þær námu 3,2 milljörðum króna á árinu. Rekstrargjöld námu 1,4 milljörðum króna.

Eignir Hvals í lok árs námu 23,7 milljörðum króna og jukust um 3,7 milljarða milli ára. Skuldir voru 8,1 milljarður og nam eigið fé fyrirtækisins því 15,7 milljörðum króna í lok ársins.

Stærsti hluthafi Hvals er Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. sem á 39,5% hlut í fyrirtækinu. Félagið er meðal annars í eigu Kristjáns Loftssonar, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur.