Hvalur hagnaðist um rúmlega tvo og hálfan milljarð króna á síðasta ári og jókst afkoman um 1,8 milljarða milli ára. „Stór hluti af þessum hagnaði er vegna eignarhlutar í HB Granda og Hampiðjunni,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, í samtali við Fréttablaðið .

Eignir Hvals námu rúmum 20 milljörðum króna en skuldir 5,3 milljörðum króna. Birgðir af frystum hvalaafurðum voru jafnframt metnar á 1,8 milljarða króna.

Stjórn Hvals ákvað síðastliðið vor að greiða 986 milljónir króna í arð til eigenda félagsins. Þeir voru 110 talsins í septemberlok árið 2013 og er fiskveiðifélagið Venus stærsti hluthafinn með 39,5% hlut. Félagið er meðal annars í eigu Kristjáns Loftssonar, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur.