*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 14. september 2018 13:50

Hvalveiðar hefti vöxt sjávarútvegsins

Oliver Luckett segir mikla möguleika felast í ímynd Íslands erlendis, en hún sé afar viðkvæm fyrir neikvæðri umfjöllun um hvalveiðar.

Júlíus Þór Halldórsson
Oliver Luckett kom fyrst til Íslands árið 2011 og heillaðist strax af landi og þjóð.
Haraldur Guðjónsson

Frumkvöðullinn og fjárfestirinn Oliver Luckett kom fyrst hingað til lands árið 2011. Tilgangur heimsóknarinnar var verkefni sem hann vann að með Björk, en hann sá fljótt mikil tækifæri í þeirri jákvæðu ímynd af landinu sem byggðist upp samhliða ferðamannasprengingunni eftir hrun. Markaðsátök hafi vissulega haft sitt að segja um það, en öðru fremur sé það þó einfaldlega ferðamennska sem geti af sér meiri ferðamennsku, þökk sé samfélagsmiðlum.

„Eftir að ég fór að venja komur mínar hingað kynntist ég því sem Björk og Andri Snær voru að berjast fyrir varðandi hálendið. Hálendið er grundvallarauðlind íslensku þjóðarinnar sem fólk víðs vegar að úr heiminum flykkist að til að ljósmynda og deila á Instagram. Í dag bera yfir 9 milljónir mynda á miðlinum myllumerkið #Iceland. Vöxtur ferðamennsku á Íslandi hefur fylgt vexti Instagram afar náið,“ segir Luckett.

Luckett stofnaði ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur sjávarafurðafyrirtækið Niceland Seafood á síðasta ári. Það hyggst gera út á ímynd Íslands með því að selja rekjanlegan íslenskan fisk beint til neytenda erlendis, en meðal fjárfesta í fyrirtækinu er fjárfestingafélagið Eyrir Invest. „Fyrirtækið byggir á því að hagnýta jákvæða ímynd Íslands.“

Íslenskur fiskur sem vörumerki hefur ekki verið til
Luckett segir íslenskar sjávarafurðir hingað til ekki hafa verið til sem vörumerki í Norður-Ameríku. „Ég hef aldrei nokkurn tímann séð íslenskt sjávarfangsvörumerki í Norður-Ameríku. Íslenskur lax er alltaf seldur sem lax úr Norður-Atlantshafinu. Afar fá fyrirtæki sem við höfum rætt við kaupa íslenskan fisk beint frá Íslandi. Flestir segja það vera vegna hvalveiða á 9. áratugnum; matvöruverslanir hafi fjarlægt nafn Íslands vegna þeirra og einfaldlega kennt fiskinn við Norður-Atlantshafið.

Við erum að eyða háum fjárhæðum í að kynna vörumerkið og salan fyrstu mánuðina hefur verið mjög góð. Hvar sem við höfum komið höfum við selt upp, þannig að þetta lofar mjög góðu,“ segir Luckett, en bætir við að þessi ímynd og jákvæðnin í garð hennar sé afar viðkvæm og henni stafi mikil hætta af neikvæðri umfjöllun um hvalveiðar Íslendinga. „Hér erum við með holla, prótínríka fæðu úr hreinu og traustvekjandi umhverfi sem er unnin með sjálfbærri orku innan sjálfbærs kvótakerfis, í mannvænu landi sem kemur vel fram við fólk og allir vilja heimsækja til að berja mikilfenglega náttúruna augum, og svo birtist allt í einu forsíðufrétt hjá Daily Mail – einni víðlesnustu fréttasíðu heims – um slátrun hvala í útrýmingarhættu á Íslandi.“

Þá bendir hann á að hvalveiðarnar hafi einnig áhrif á ferðamannaiðnaðinn og því sé um að ræða tvær stærstu útflutningsgreinar landsins. „Þegar allt kemur til alls hefur þetta áhrif á tvo mjög stóra atvinnuvegi. Ég hef heyrt það frá Icelandair að þeir sjái markverða fækkun bókana daginn sem svona fréttir eru birtar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: hvalveiðar Oliver Luckett sjávarúvegur
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is