Fjórtán dýraverndunarsamtök sem rekið hafa herferð gegn HB Granda vegna tengsla fyrirtækisins við hvalveiðar segja sölu á 34% hlut Kristjáns Loftssonar og tengdra aðila í HB Granda til Brims engu breyta þar um. Samtökin hafa og munu halda áfram að berjast gegn hvalveiðum Íslendinga með því að þrýsta á fyrirtæki um að eiga ekki í viðskiptum við HB Granda vegna hvalveiða Hvals hf., sem hingað til hefur verið stærsti hluthafi HB Granda.

Samtökin hafa frá árinu 2014 haldið úti herferðinni „Don’t buy from Icelandic whalers“ þar sem þau hvetja til þess að HB Grandi og fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við HB Granda verði sniðgengin vegna tengsla við Hval. Þá hvetja samtökin einnig almenning til að senda fyrirtækjunum og íslenskum stjórnvöld bréf til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga.

Segja söluna í HB Granda ekki tilviljun

Í yfirlýsingu frá dýraverndunarsamtökunum segja þau enga tilviljun að tilkynnt hafi verið um söluna á sama tíma og Hvalur tilkynnti um að fyrirtækið myndi hefja hvalveiðar á ný. Haft er eftir Clare Perry, sem fer fyrir herferð Environmental Investigation Agency, sem er eitt af samtökunum fjórtán, að með sölunni sé verið að reyna að létta af þeim þrýstingi sem sé á HB Granda vegna hvalveiða.

Samtökin benda á að Kristján sé enn stjórnarformaður HB Granda og eigi áfram 249 þúsund hluti í félaginu en markaðsvirði hlutanna nemur tæplega 9 milljónum króna. Gera má ráð fyrir að Kristján hverfi úr stjórn HB Granda eftir aðalfundi félagsins sem fer fram þann 4. maí.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.