Mikil uppbygging er nú að fara af stað í Króatíu. Þar er verið að byggja upp ferðamannaaðstöðu og frístundabyggðir, en eyjan Hvar er einna fyrst til að hefja slíka uppbyggingu. Eyjan er hluti af yfir 1.100 Dalmatíueyjum á Miðjarðarhafsströnd eða öllu heldur Adríahafsströnd Króatíu. Hefur eyjan einkum verið þekkt vegna mikilvægrar hafnaraðstöðu sinnar, langrar menningarsögu og þægilegs loftslags.

Eyjan Hvar á yfir 140 ára sögu í ferðamannaþjónustu og er m.a. talin ein af 10 fallegustu eyjum heims. Fallegar sandstrendur hafa laðað að ferðamenn og blár og kristaltær sjórinn við eyjuna skemmir heldur ekki fyrir. Þá eru eyjaskeggjar líka frægir fyrir sína matargerðarlist. Stærsti bær eyjunnar ber líka nafnið Hvar, en þar eru fleiri bæir eins og hinn forni og myndræni bær Stari Grad.

Hvar liggur í austur/vestur og er um miðbik Dalmatíueyjaklasans og er um 3 sjómílur frá meginlandinu. Tignarleg fjöll eru um miðbik eyjarinnar, en á láglendinu á milli bæjanna Stari Grad, Vrboska og Jelsa eru vínekrur.

Stöðugt fleyri sækjast eftir að kaupa hús á Dalmatíueyjum og auk Hvar eru eyjarnar Brac, Rab, Krk, Korcula, Visa og Kvarner eftirsóttar. Nú verið að byggja þyrpingu lúxushúsa á Hvar-eyju. Þau eru frá 220 til 290 fermetrum að stærð, og með 1.200 til 1.500 metra garði í kring. Að sjálfsögðu eru svo sundlaugar við húsin. Þessi húsaþyrping gengur undir nafninu "Villas Male Rudine", en nýju byggingarnar eru hannaðar í sama byggingastíl og einkennir þetta svæði.

Lesið um fasteignir í Viðskiptablaðinu.