Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur verið lengi í burtu og engin mál inni á Alþingi hjá ríkisstjórninni, að mati Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar. Hann lýsti eftir Sigmundi við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og sagði nauðsynlegt að geta rætt við verkstjóra ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur var ekki á þinginu í dag en Kristján L. Möller, sem stýrði þingfundi, sagði að samkvæmt fjarveruskrá verði Sigmundur frá í dag.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði Helga Hjörvari því að ólíkt ráðherrum fyrri ríkisstjórnar séu ráðherrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sjálfstæðir í störfum sínum. „Þótt forsætisráðherra er upptekinn þá starfar ríkisstjórnin ágætlega,“ sagði hún.