Íslenskir mannauðsstjórar nýta sér samfélagsmiðla í meira mæli heldur en kollegar þeirra á Norðurlöndum þegar þeir meta hæfi umsækjenda. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi sem unnin var að Rannsóknarmiðstöð í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild HR.

Arney Einarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun á Íslandi segir að niðurstöður skýrslunnar benda til þess að íslensk fyrirtæki nýti sér jafnvel slíka miðla í stað persónuleikaprófa. Hún segir þó að hætta sé á því að dregnar séu rangar ályktanir af upplýsingum af samfélagsmiðlum og að slíkar upplýsingar verði ráðandi  við ákvarðanatöku í ráðningum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að íslensk fyrirtæki nýti sér sjaldan kosti breytilegra launa til að umbuna og hverja starfsfólk miðað við hin Norðurlöndin. Arney segir að m.a. vera vegna þess neikvæða viðhorf sem er til hvatagreiðslna:

„Hvatagreiðslur hafa fengið á sig neikvæðan stimpil enda voru þær notaðar á rangan hátt í aðdraganda hrunsins. Slíkar greiðslur geta verið mjög jákvæðar, en þær þurfa að ná til breiðs hóps og byggja á formlegu og kerfisbundnu frammistöðumati en ekki geðþóttaákvörðunum. Þær mega heldur ekki vera of stór hluti af heildarlaunum hjá hverjum einstökum starfsmanni eða stjórnanda. Breytileg umbun getur líka verið í formi frís eða annarra fríðinda sem nýjar kynslóðir á vinnumarkaði virðast meta meira en þær eldri.“

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Arney Einarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun á Íslandi.