„Hvatakerfi hafa áhrif á hegðan fólks og það þarf að hvetja fólk í réttar áttir. Ég er sannfærður um að góð hvatakerfi gera heilmikið gagn en á sama hátt gera léleg hvatakerfi mikið ógagn,“ segir Ingvi Þór Elliðason, forstjóri Capacent.

Hann telur hvatakerfi mjög mikilvægan þátt í rekstri fyrir­tækja. Slíkt fyrirkomulag er við lýði hjá Capacent en þar eru starfsmenn með blöndu af föstum launum og árangurstengdum bónusum fyrir störf sín.

„Hvatakerfi hafa reynst Íslendingum mjög vel í gegnum tíðina, til dæmis í sjávarútvegi. Á fiskiskipum eru hlutaskiptakerfi og fá sjómenn hærri laun ef vel veiðist, meðferð aflans er góð og söluverð hátt. Þá fá iðnaðar­menn sem vinna samkvæmt uppmælingu laun í takt við það hversu vel þeim gengur með verkið. Þetta eru hvatakerfi sem hafa reynst vel í gegnum tíðina. Hins vegar hafa menn um víða veröld misstigið sig í hvatakerfum, til dæmis í fjármálageiranum þar sem hvatakerfin voru ekki nógu vel ígrunduð. Það sem gerðist var að starfsmenn voru hvattir til óhóflegrar áhættuhegðunar og of mikið var horft til skamms tíma. Þá vantaði meiri girðingar og reglur í kring­ um þessi kerfi. Í kjölfar efnahagshrunsins hafa hvatakerfi almennt fengið á sig óorð og það er verk að vinna að bæta þessi kerfi,“ segir Ingvi.

Aðspurður hvort fyrirtæki séu farin að taka upp slík kerfi aftur eftir hrun svarar Ingvi ját­andi. „Orðið hvatakerfi var bannorð fyrstu árin eftir hrun en nú eru fyrirtæki í auknum mæli farin að útfæra hvatakerfi fyrir sína starfsmenn.“

Nánar er rætt við Ingva í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .