Mikil undirliggjandi þörf er fyrir ódýrum íbúðum. Heilu kynslóðirnar, sem ættu að vera fluttar að heiman eru það ekki vegna skorts á húsnæði. Ástæðan er meðal annars hár byggingarkostnaður sem og að hlutfallslega er lóðakostnaður meiri ef byggðar eru ódýrar íbúðir.

Frá árinu 2010 hefur byggingarvísitala hækkað um tæplega 28% og það sem af er þessu ári hefur hún hækkað um 6% eða töluvert meira en fasteignaverð, sem hefur hækkað um 4,1% á árinu. Nýjar tölur frá Hagstofunni sýna, svo ekki verður um villst, að lítið er byggt af nýju húsnæði. Í Hagvísum, sem komu út fyrr í mánuðinum, kemur fram að íbúðafjárfesting hafi dregist saman um 13,3% á fyrstu sex mánuðum ársins og 20,4% samanborið við 2. ársfjórðung í fyrra.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, segir sérstakt áhyggjuefni að íbúðafjárfesting sé að dragast saman.

„Leiguverð, fasteignaverð og umræða meðal ungs fólks, sem er að reyna að komast inn á markaðinn, sýnir hvað það er ofboðslega mikil undirliggjandi þörf fyrir húsnæði," segir Bjarni Már.  „Síðustu sex til sjö ár hefur verið byggt langt undir allri grunnþörf. Heilu kynslóðirnar, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum væru fluttar að heima, eru það ekki. Núna eru að nálgast 25 ára aldurinn mjög stórir árgangar og það er mikil pressa þaðan."

Hvati til að byggja dýrar íbúðir

Spurður hvað valdi því að ekki sé byggt nóg af íbúðum svarar Bjarni Már: „Það eru nokkrar skýringar mögulegar þó erfitt sé að átta sig nákvæmlega á samspilinu á milli þeirra. Byggingarverktakar virðast vera að byggja frekar dýrar og stórar íbúðir sem mæta illa þörfum ungs fólks enda mikið til lúxusíbúðir. Þær reglugerðir sem byggt er eftir og uppbygging á lóðarverði er með þeim hætti að verktakar hafa hvata til að byggja þessar stóru dýru íbúðir. Hlutfallslegur lóðakostnaður, peningurinn sem rennur til sveitarfélagsins, verður hærri eftir því sem byggt er ódýrara. Við höfum kallað eftir því að þessu verði breytt.

Annað sem ekki er til þess fallið að lækka byggingarkostnað er að fókusinn, til dæmis hjá Reykjavíkurborg, er að byggja inn á við. Nýbyggingarsvæðin eru flest inni í borginni. Það er ekkert að því að þétta byggð en þá verðum við að horfast í augu við að það er dýrara. Það er flókið og kostnaðarsamt að byggja blokk inni í þéttri byggð.

Ekki eru heldur hægt að horfa fram hjá því að kostnaður þess sem byggir, fjármagnskostnaður og aðgengi að lánsfé er mikill. Það er dýrt að byggja í dag. Það þarf að fara varlega í að nota byggingarvísitöluna til grundvallar þegar meta á þróun byggingarkostnaðar og þróun fasteignaverðs. Byggingarvísitalan mælir til dæmis ekki lóðaverð, hönnunarkostnað og fjármagnskostnað. Þróun fasteignaverðs og baráttan og slagurinn á leigumarkaðnum ætti eitt og sér að segja okkur að það er mikil undirliggjandi þörf."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .