Að sögn Ástu Sigríðar Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, er íslenskt viðskiptalíf að ýmsu leyti frábrugðið því sem hún kynntist erlendis.

„Það kom mér á óvart t.d. hversu neikvæður tónn umlykur orð á borð við arðgreiðslur fyrirtækja á Íslandi. Eins og skilningur á arðgreiðslum sé allt annar en til dæmis á vöxtum í banka. Mér finnst stemningin líka vera sú í samfélaginu að það sé bara eðlilegt að ríkið blómstri og taki meira og meira til sín. Að það sé eðlilegt að meðallaun hjá hinu opinbera séu hærri en á almennum vinnumarkaði. Að laun stjórnmálamanna hækki umfram laun á almennum vinnumarkaði, því þau laun leiða laun stjórnenda og starfsmanna hins opinbera. Hvaða hvati er eiginlega til staðar fyrir einstaklinga að velja að taka á sig töluverða áhættu í flóknu rekstrarumhverfi Íslands, eins og til dæmis að stofna sitt eigið fyrirtæki, þegar hægt er að tryggja sér starf sem veitir bæði betri laun og meira starfsöryggi? Fólk spyr sig eðlilega að því. Hvatinn til að taka áhættu, skapa verðmæti í gegnum einkaframtak er allt of lítill. Ég óttast að við vanrækjum sjálfbæran vöxt hagsældar í landinu en við verðum að auka verðmætasköpun til að tryggja áfram þetta góða líf sem við erum orðin vön."

Mannauður nýrra Íslendinga

„Einnig má nefna að við erum með um 40 þúsund erlenda ríkisborgara hér á landi sem er um 11% landsmanna. Þarna er mikill mannauður sem við verðum að huga vandlega að. Því miður sýna niðurstöður kannana að við erum ekki að sinna þeim nægilega vel í menntakerfinu og langflestir á vinnumarkaðnum eru í láglaunastörfum. Ég held við vitum allt of lítið um þennan hóp og virðumst e.t.v. ganga út frá því að þetta fólk fari þegar skammtímastörfum hér lýkur. En það er ekki víst og því mikilvægt að það hafi hér sömu tækifæri og við Íslendingar.  Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem leita sér betra lífs í öðrum löndum eru oft dugmeiri og hugrakkari en þeir sem heima sitja.

Við erum fámenn og þurfum á öllu okkar fólki að halda. Í Japan, þar sem ég bjó í nokkur ár, dáðist ég að því hvernig fyrirtæki þar yfir ákveðinni stærð voru með fólk með skerta starfsgetu í hlutastörfum. T.d. var blindur maður á skrifstofu minni hjá McKinsey sem tók okkur í hugleiðslu. Ósveigjanlegur vinnumarkaður og skerðingar á bótum þeirra sem vilja vinna, takmarkar atvinnuþátttöku þessa hóp hér heima. Þetta er ekki bara spurning um efnahagsmál, heldur einnig heilbrigðismál, sem hefur áhrif á líðan og sjálfsmynd þessa hóps. Hér verða stjórnvöld og fyrirtækin að gera miklu betur.

Sama má kannski segja um eftirlaunaþega hér á landi. Eftirlaunaaldur á Íslandi miðast við lífaldur sem járnkanslarinn Otto von Bismarck skilgreindi árið 1889 sem 70 ár, en þá voru meðallífslíkur 45 ár. Nú eru aðstæður gjörbreyttar. Fólk lifir mun lengur og er heilbrigðara. Við eigum að auðvelda þeim eftirlaunaþegum sem vilja og geta unnið lengur að gera það. Fólk þarf ekki endilega að sinna sömu stöðu. Hægt væri að semja um afmörkuð verkefni til eins árs í senn sem bæði taka mið af hagsmunum fyrirtækisins eða stofnunarinnar og starfsfólksins sem fer á eftirlaun," segir Ásta.

Viðtalið við Ástu má í heild sinni nálgast í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér .