Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin, OECD, segir helsta verkefni íslenskra stjórnvalda vera að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar um íslenskt efnahagslíf en stofnunin telur að íslenska hagkerfið gæti kólnað á næstunni.

Þá hvetur stofnunin til þess að ekki verði slakað á peningamálastefnu landsins fyrr en verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð. Viðurkennt er að vextir bankans séu háir en þá segir stofnunin að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við hækkandi verðbólgu.

Eins og fyrr segir er mikil áhersla lögð á jafnvægi í efnahagslífinu. Líkt og áður segir OECD að skilgreina þurfi hlutverk Íbúðarlánasjóðs upp á nýtt en stofnunin segir bankann grafa undan virkni peningamálastefnunnar og auki á ójafnvægi í fjármálalífinu. Stofnunin leggur til að bankinn verði látinn greiða gjald til að jafna stöðu hans við aðra viðskiptabanka. Þá mælir stofnunin með því að skilið verði milli félagslegs hlutverks sjóðsins og heildsölustarfsemi hans á markaði.

Betri nýting í heilbrigðiskerfinu

Sérstök áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið en í skýrslunni hvetur stofnunin til frekari einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og segir að bregðast þurfi við aukunum útgjöldum til heilbrigðismála.

Stofnunin segir að nýta megi fjármagn betur með aukinni samkeppni og úthýsingu einstakra verkefna. Þá varar stofnunin sérstaklega við auknum útgjaldaþrýstingi í kerfinu segir stjórnvöld sérstaklega þurfa að huga útgjöldum. Í skýrslunni segir stofnunin nauðsynlegt að spara í lyfjakostnaði með aukinni notkun samheitalyfja.

Minni verðbólga og aukinn hagvöxtur

Í skýrslunni kemur fram að hagvöxtur hafi verið 1,2% á síðasta ári, verði 1% á þessu ári og spáð er 1,6% hagvexti árið 2009.

Um verðbólguna segir OECD að hún verði 4,4% á þessu ári og 2,8% árið 2009. Gert er ráð fyrir lækkun stýrivaxta og spáð því að þeir verði 9,9% á næsta ári.