Þegar farið er inn í nýtt ár er oft erfitt að sjá fyrir hvað það muni bera í skauti sér. Í byrjun árs 2019 lá þó fyrir að útkoma kjaraviðræðna og afdrif WOW air myndu hafa töluverð áhrif á þróun íslensks efnahagslífs á árinu. Eftir töluverðan hagvöxt síðustu ára má segja að niðurstaða liðins árs hafi verið ákveðinn varnarsigur því þrátt fyrir fall WOW air virðist sem samdráttur í hagkerfinu hafi ekki orðið jafn djúpstæður og óttast var í fyrstu auk þess sem segja má að með lífskjarasamningnum hafi náðst ákveðin sátt á vinnumarkaði þó að vissulega sé ekki öllum kjaraviðræðum lokið og atvinnuleysi hafi aukist.

Að mati Kristrúnar Frostadóttur, aðalhagfræðings Kviku banka, er stærsta spurningin fyrir þetta ár hversu hraður efnahagsbatinn verður eftir samdráttarár í fyrra en ekki endilega hvort við séum að fara að horfa fram á annað ár af samdrætti eða um 0% hagvöxt.

„Ég held að oftast þegar maður fer inn í hvert ár þá sé erfitt að sjá fyrir þessa stóru og óvæntu þætti. Það sem ég myndi segja að sé stóri óvissuþátturinn fyrir þetta ár og það næsta er hversu fljótur batinn verður í hagkerfinu eftir skellinn í fyrra. Þetta er því spurning um hvort við séum að tala um 1-4% hagvöxt en ekki hvort við séum að fara í t.d. 3% samdrátt.

Það sem oft birtist í umræðunni er að fólk hefur ekki alveg tilfinningu fyrir því að til þess að fara inn í annað ár eins og það síðasta þá þurfum við að sjá mjög lítinn bata og í raun áframhaldandi samdrátt á ýmsum sviðum. Það þarf því að vera aukin meðvitund um að til þess að ekkert gerist á þessu ári, þ.e. að það verði 0% hagvöxtur eða samdráttur þá þarf t.d. svipaðan samdrátt í ferðaþjónustu, svipaðan samdrátt í fjárfestingu og fleiri þáttum.

Þegar verið er að eiga við prósentutölur á milli ára, komandi út úr svona erfiðu ári þá þarf mjög slæmt ástand til skapa aftur samdrátt. Rökin fyrir áframhaldandi samdrætti eða óbreyttri landsframleiðslu eru því ekkert rosalega sterk. Að því sögðu þá er 1-1,5% hagvöxtur, sem er sá vöxtur sem flestir greinendur eru að spá, auðvitað ekkert mikill vöxtur eftir samdráttarár. Aftur á móti er þetta allt hlutfallslegt. Við erum að koma úr hagvexti síðustu 4-5 ár sem var langt yfir jafnvægisvexti. Að mínu mati eru eðlilegar væntingar til þessa árs að við séum ekki fara að sjá neitt ofboðslega hraðan bata en það er engin ástæða til að ætla að þetta sé að fara að verða jafn erfitt ár og í fyrra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .