Enn sem komið er bendir lítið til þess að þörf sé á magnbundinni íhlutun til þess að þvinga vexti niður. Mér finnst þetta meira vera flökt innan eðlilegra marka, fremur en alvarlegt ástand. Hins vegar ef þetta heldur áfram og það verða frekari hækkanir þá er það umhugsunarefni,“ segir Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, spurður út í þróun á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. „Mitt mat er það að þrátt fyrir þessa hækkun séu vextir enn mjög lágir,“ segir Yngvi enn fremur.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggða ríkisskuldabréfaflokksins RIKB 31 sem er á gjalddaga árið 2031 er nú rúmlega 3,1%. Krafan er því eilítið hærri en hún var að jafnaði í febrúarmánuði á þessu ári þegar stýrivextir Seðlabankans voru 2,75%. Það sem af er ári hefur krafan farið lægst í um 2,2% í maí í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti um 75 punkta, úr 1,75% í 1%.

Stýritækið sem enn er ónýtt

Síðla marsmánaðar á þessu ári boðaði Seðlabankinn magnbundna íhlutun, kaup skuldabréfa á opnum markaði. Alls nemur heimild Seðlabanka Íslands 150 milljörðum króna. Það eru um fimm prósent af vergri landsframleiðslu Íslands, talsvert lægri heimild en margra annarra erlendra seðlabanka. Stýritækinu var ætlað að hafa áhrif á langtímakröfu skuldabréfa. Í byrjun október hafði Seðlabankinn keypt bréf fyrir tæpan milljarð króna og því enn verulegt svigrúm til aðgerða.

Á sínum tíma kom fram að ætlun bankans væri að tryggja framgang peningastefnunnar á markaði – svo að heimili og fyrirtæki geti notið lágra vaxta í gegnum komandi kreppu. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét hafa eftir sér að magnbundin íhlutun væri í raun ígildi peningaprentunar. Fram kom að stýritækið yrði notað til lengri tíma. Óljóst er hvenær Seðlabankinn telur rétt að nýta téð stýritæki af krafti. Síðasta tilkynning bankans þess efnis barst í upphafi októbermánaðar og var þá ekki talin ástæða til aðgerða.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .