Uppgjör stóru viðskiptabankanna þriggja liggja nú fyrir en samanlagður hagnaður þeirra fyrir skatta nam tæplega 55 milljörðum íslenskra króna og ávöxtun eigin fjár þeirra fyrir skatta á ársgrundvelli samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins var afar há eða á bilinu 19-43% - og feikihá í ljósi aðstæðna á mörkuðum.

Mikið gengisfall íslensku krónunnar hafði þó veruleg áhrif á uppgjör bankanna og gerir allan samanburð á afkomu þeirra mjög erfiðan enda er það svo að þeir færa gengisbreytingarnar hver með sínum hætti.

Þannig var arðsemi eigin fjár fyrir skatta var langhæst hjá Landsbankanum eða nær 43%, hún var hátt í 26%  hjá Kaupþingi en lægst hjá Glitni eða rúm 19%.

Sá samanburður er hins vegar lítt eða ekki marktækur vegna mismunandi áhrifa af falli krónunnar á rekstrarniðurstöðu bankanna.

Ef horft er fram hjá sveiflugjörnustu liðunum á rekstrarreikningi, þ.e. gengisliðinum og um leið gjaldeyrisbreytingum, og arðsemi af kjarnastarfsemi bankana skoðuð, eins og hún er her skilgreind verður niðurstaðan allt önnur.

Þá er Glitnir með hæstu ávöxtun á eigin fé eða rúm 27%, ávöxtun Landsbankans fellur um rúmlega fimmtung í 21% og Kaupþings fellur úr 25% í 13%.

Sá samanburður gefur vissulega mun betri mynd enda á sama grundvelli að mestu og búið að fella burt sveiflugjörnustu tekjuliðina og einblínt á þá tekjuliði sem mynda kjölfestuna í rekstri bankana, þ.e. vaxta- og þóknanatekjur.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt Viðskiptablaðsins í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .