*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 17. apríl 2019 12:52

Hver er helsti keppinautur McDonalds?

Burger King er víst ekki lengur helsti keppinauturinn, því umdeild veitingahúsakeðja vex hratt og selur meira.

Ritstjórn
epa

Veitingahúsakeðja, sem umdeild er meðal ákveðinna hópa í Bandaríkjunum, nálgast að verða sú þriðja stærsta á Bandaríkjamarkaði í sölu, og stefnir í að hún skáki bæði Burger King og Wendy´s í sölu á árinu.

Kjúklingastaðakeðjan Chick-fil-A, sem er með um 2.200 veitingastaði, sem þó er langt frá langstærstu keðjunni McDonalds, mælt í tekjum, sem er með hátt í 40 þúsund veitingastaði út um allan heim, þar af rúmlega 14 þúsund í Bandaríkjunum, og þeirri stærstu í fjölda staða, Subway, sem er með um 42 þúsund staði í heiminum, en um 27 þúsund í Bandaríkjunum. Sú keðja lokar nú fleiri veitingastöðum heldur en nokkur annar.

Nú þegar hefur Chick-fil-A þó náð framúr McDonalds í tekjum á hvern veitingastað, en á þeim hraða sem félagið vex í dag mun það þó taka önnur 21 ár áður en félagið nær stærð McDoanalds, en það miðast við þá ólíklegu forsendu að McDonalds hætti að vaxa. Á síðasta ári jókst salan hjá kjúklingastaðnum um heil 15,5% og umferð um staði þess um 10%,

McDonalds hefur svarað með auknu úrvali kjúklingarétta, en staðurinn verður ekki auðveldlega sigraður, enda með mjög sterka stöðu á markaði. Hins vegar var Chick-fil-A kosinn uppáhaldsveitingastaður Bandaríkjamanna þriðja árið í röð sem og sá besti í þjónustu við viðskiptavini auk þess sem hann teljist hreinasti veitingastaður landsins samkvæmt könnun.

Staðurinn hefur jafnframt verið mjög vinsæll meðal foreldra, jafnvel sagður með eindæmum barngóður og bjóða þeir þeim upp á aukna þjónustu fyrir foreldra auk þess sem staðirnir eru með leiktækjum og öðru sem börn viðskiptavina geta nýtt.

Keðjan var stofnuð árið 1946 og eru gildi félagsins sögð enn innblásin af íhaldssömum gildum stofnandans, suðurríkjababtistans S. Truett Cathy. Þannig hefur keðjan lagt ýmsum umdeildum félagslegum málefnum í Bandaríkjunum lið. Þar með talið hefur félagið gefið til stuðningshópa andstæðinga þess að heimila ætti hjónabönd samkynhneigðra í atkvæðagreiðslum sem fram fóru í sumum ríkjum landsins áður en hæstiréttur landsins hjó á hnútinn.

McDonalds hefur sjálft ekki farið varhluta af gagnrýni, og nefnir umfjöllun Reader´s Digest um veitingastaðina þar meðal annars myndina Super Size Me og notkun á fínhökkuðu nautakjöti sem kallað hefur verið bleikt slím.