Flestir sem fylgjast með fréttum þekkja frumkvöðulinn og tækniséníið Elon Musk, stofnanda Tesla Motors, Paypal og SpaceX.

Bróðir Elon, Kimbal Musk , er þó engu minna áhugaverður - en fær talsvert minni athygli.

Eftir að Kimbal og Elon seldu fyrsta tæknifyrirtækið sitt, 'Zip2', fyrir einhverjar 300 milljónir dala ákvað hann að verða kokkur og fór í matreiðsluskóla. Seinna meir opnaði hann svo nokkra veitingastaði í Colorado-fylki, sem eru mikils metnir meðal matgæðinga.

Núna hefur hann það að markmiði að bylta matarmenningu Bandaríkjanna, með því að ýta undir neyslu á heilbrigðum mat og sjálfbærni í framleiðslu og ræktun.

Áætlunin er gróflega á þann veg að Kimbal fer milli borga og opnar hvern veitingastaðinn á fætur öðrum. Þeir bjóða upp á ódýran og hollan mat, og eiga að ýta undir neyslu á hollari mat. Því næst notar Kimbal hagnaðinn (auk styrkja frá einkaaðilum og sveitarstjórnum) til að byggja skólagarða í borginni. Markmiðið er að byggja 100 skólagarða í hverri borg fyrir sig.

„Bandarískir krakkar hafa enga hugmynd um hvaðan kjötið eða gulræturnar sem þeir borða kemur,“ segir Kimbal. „Það er eins og við séum að sýna þeim töfrabragð þegar við hjálpum þeim að draga fullvaxnar gulrætur úr moldinni. Þau vita ekki hvaðan stendur á sig veðrið.“

Auk þessa er Kimbal ötull stuðningsmaður lífrænnar ræktunar í Bandaríkjunum. Hann talar um að það sé ósanngjarnt að stórbændur fái gífurlegar ívilnanir og styrki meðan lífrænir bændur fá ekki sömu fjárframlög.