Bresk götublöð eru gjörn á að setja stimpil á fræga fólkið og hefur auðkýfingurinn og tískudrottningin Goga Ashkenazi verið kölluð kvenkyns Roman Abramovich. Eins flestir vita er Abramovich rússneskur auðjöfur og eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea.

Ashkenazi er ættuð frá Kazakstan og komst í fréttirnar hér heima eftir að myndband birtist af henni og föruneyti hennar dansandi við eldgosið í Holuhrauni. Þangað hafði hún komist með þyrlu.

Ashkenazi er alin upp í Moskvu en auðgaðist í viðskiptum með olíu, gas og góðmálma. Hún átti meðal annars stóran hlut í fyrirtækinu Altynalmas, sem á gullnámur í Kazakstan.

Ashkenazi, sem er 33 ára, er menntuð frá Oxford háskóla í Englandi og komst fyrst fréttirnar þar í landi árið 2001 vegna vináttu sinnar við Andrew Bretaprins. Síðan þá hefur hún meðal annars fylgt prinsinum á Ascot-veðreiðarnar og verið reglulegur gestur á síðum bresku slúðurblaðanna.

Hún vakti mikla athygli árið 2012 þegar hún festi kaup á tískuhúsinu Vionnet, sem stofnað var af Madeleine Vionnet árið 1912. Eftir kaupin hefur hún verið áberandi í tískuheiminum.

Breska blaðið The Daily Mail greindi frá því fyrr á þessu ári að Ashkenazi væri umvafinn aðstoðarfólki og væri með um 15 manns í vinnu hjá sér við að elda, þjóna og gæta barnanna hennar tveggja. Það fylgdi reyndar með í fréttinni að hún fengi sér reglulega kavíar í morgunmat.

Börnin á hún með milljarðamæringnum Timur Kulibayev. Til að flækja málið aðeins þá hafa þau aldrei verið opinberlega í sambandi enda er Kulibayev giftur Kulibayevu Dinöru Nursultanovnu dóttur Nursultan Nazarbayev, forseta Kazakstan.

Gosstöðvarnar við Holuhraun hafa verið lokaðar öðrum en vísindamönnum og fjölmiðlum og því gæti dans Ashkenazi og félaga hennar dregið dilk á eftir sér enda er lögreglan á Húsavík komin í málið.