Á komandi aðalfundi VR mun stjórn félagsins leggja til að hver félagsmaður eignist séreignasjóð hjá félaginu, svokallaðan VR-varasjóð. Sjóðinn getur hver og einn nýtt til ákveðinna verkefna að eigin vali svo sem símenntunar, ýmissa orlofsmála, forvarna og endurhæfingar eða til framfærslu t.d. við atvinnumissi, heilsubrest eða við starfslok vegna aldurs.

Breytingarnar munu þannig auka sveigjanleika félagsmanna á vinnumarkaði en samkvæmt þeim mun hver félagsmaður fá greiddan hluta af sínu félagsgjaldi, sjúkrasjóðsgjaldi og orlofssjóðsgjaldi inn á VR-varasjóð í eigin nafni. Þessir fjármunir hafa hingað til runnið óskiptir í sameiginlega sjóði.

Gert er ráð fyrir að 350-400 milljónir króna renni árlega í VR-varsjóði félagsmanna. Til að byrja með munu þó um 1.100 milljónir króna verða lagðar inn í séreignasjóði félagsmanna sem eru um 22.000 talsins. Þetta jafngildir hagnaði af rekstri sjóða félagsins sl. tvö ár. Þeir munu því eignast sjóð með um 45.000 kr. inneign að meðaltali - sumir meira, aðrir minna. Upphafsstaða hvers og eins er reiknuð út frá greiðslum til félagsins og því hve mikið viðkomandi hefur nýtt sér styrki og niðurgreiðslur úr sjóðum þess undanfarin ár.

Stjórn VR telur áðurnefndar breytingar vera mikilvægan áfanga í þeirri þróun á vinnumarkaði sem félagið hefur beitt sér fyrir undanfarin ár. Þær endurspegla sömu nútímalegu viðhorf og leiddu af sér markaðslaunakerfi og launaviðtöl sem skilað hafa félagsmönnum umtalsverðum kjarabótum.

Fjárhagslegur styrkur og stærð VR tryggir áfram stöðu félagsins sem trausts bakhjarls félagsmanna. Stærstur hluti iðgjalda rennur áfram til samtryggingar félagsins og stendur straum af sjúkra- og slysadagpeningum, dagpeningum vegna veikinda barna, örorkubótum, dánarbótum og lögfræðiaðstoð til félagsmanna. Dvöl félagsmanna í orlofshúsum verður ennþá niðurgreidd, en í töluvert minna mæli en verið hefur, þar sem inneign kemur á móti segir í tilkynningu félagsins.