*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 24. september 2021 17:17

Hver ferðamaður eyðir mun meira en áður

Hver erlendur ferðamaður eyðir um tvö til þrefalt meira í sínum heimagjaldmiðli hér á landi en fyrir faraldurinn.

Ritstjórn
Eldgosið í Geldingadölum hefur trekkt erlenda ferðamenn til landsins.
Haraldur Guðjónsson

Neyslumynstur erlendra ferðamanna hefur breyst mikið frá því faraldurinn skall á. Þannig eyddi hver ferðamaður tvöfalt til þrefalt meira í sínum heimagjaldmiðli á fyrstu tveimur fjórðungum ársins í ár borið saman við sama tímabil árið 2019, þ.e. síðasta árið fyrir faraldur. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að hvort þessi neyslubreyting verði að einhverju leyti varanleg verði tíminn að leiða í ljós en líklegt sé að svipuð þróun haldist a.m.k. fram á næsta ár. Auknar meðaltekjur á hvern ferðamann hafi dregið umtalsvert úr neikvæðum áhrifum af fækkun ferðamanna vegna faraldursins og stutt við ferðaþjónustuna.

Í Hagsjánni er vísað í gögn Hagstofunnar sem sýni að útgjöld erlendra ferðamanna vegna ferðalaga hingað til lands hafi mælst 490 þúsund krónur á hvern ferðamann á fyrsta ársfjórðungi og 417 þúsund á öðrum ársfjórðungi.

„Til samanburðar mældist neyslan 156 þúsund á fyrsta fjórðungi 2019 og 197 þúsund krónur á öðrum fjórðungi sama árs. Á fyrsta fjórðungi þessa árs var neyslan því rúmlega þrefalt meiri en á sama fjórðungi 2019 og rúmlega tvöfalt meiri á öðrum ársfjórðungi. Á fyrri hluta ársins var meðalneyslan 140% meiri en árið 2019. Segja má að þessi þróun hafi hafist fljótlega eftir að faraldurinn hófst. Þannig var meðalneysla ferðamanna um 370 þúsund á fjórða fjórðungi á síðasta ári og jókst þá um 167% milli ára. Aukningin á þriðja fjórðungi síðasta árs var síðan 41%,“ segir í Hagsjánni.

Neysluaukningin skýrist að hluta til af aukinni dvalarlengd, sem aftur skýrist að einhverju leyti af minni möguleikum fólks til að ferðast. Því hafi fólk verið að drýgja ferðalögin með því að gista lengur á hverjum stað. Þá er bent á að það að Ísland hafi lengi vel verið grænt út frá sóttvarnarsjónarmiðum vegna fárra smita og því fýsilegur kostur fyrir erlenda ferðamenn. Auk þess sé eldgosið í Geldingadölum aðdráttarafl.