Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana ehf. sagði í morgun frá baráttu fyrirtækisins vegna eftirlitsgjalda ríkisins á fundi Félags atvinnurekenda, en Hæstiréttur dæmdi fyrirtækinu í vil fyrr í vetur vegna ofgreiðslna á eftirlitsgjöldum.

Málið var höfðað vegna prósentugjalda á kartöflur og grænmeti, en hann hafði lengi beðið um rökstuðning fyrir gjaldinu án árangurs.

Með dómi hæstaréttar var ríkinu gert að endurgreiða fyrirtækinu rúmar 40 milljónir króna í eftirlitsgjöld en auk þess hyggst félagið fara fram á 20 milljónir til viðbótar vegna síðustu tveggja ára.

Mæta oft á ári

Einnig nefndi Kjartan Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem mætir oft á ári í fyrirtækið, tekur kassa af vörum af lagernum og innheimti sýnatökugjald fyrir.

Ofan á 26 þúsund króna sýnatökugjald leggist svo 82 þúsund króna rannsóknarkostnaður á hvert sýni á vegum Matís, sem heilbrigðiseftirlitið innheimtir.

„Hver sýnataka er fimmtán stykki, þannig að fyrir hverja heimsókn borga ég 1,2 milljónir. Ég veit ekkert hvað ég er að borga fyrir,“ er haft eftir Kjartani Má í frétt FA um málið.

„Ég veit ekkert hvað kostar að taka svona sýni. Ég á engan kost á að láta einhvern annan gera þetta eða senda þetta út til rannsókna. Ég fæ bara reikning og ef ég borga hann ekki þá lokar heilbrigðiseftirlitið hjá mér.

Þetta er eins og maður sé að keyra í umferðinni á löglegum hraða og lendi í mælingu hjá lögreglunni. Þá fái maður rukkun fyrir mælinguna. Ef lögguna vantar meiri tekjur, þá er bara mælt meira. Þetta er alveg út í hött.“

Vita ekki hvaða verkefni megi framselja

Í eftirlitsgjaldaskýrslu FA kemur fram nauðsyn þess að setja mun skýrari reglur um gjaldtöku faggiltra aðila, sem falið er að sinna opinberu eftirliti, því ekki liggi fyrir skýrar reglur né gagnsæi um hvaða hlutverk eða verkefni sé heimilt að framselja til faggiltra aðila.

Jafnframt vanti reglur um greiðslu kostnaðar sem eftirlitsskyld fyrirtæki þurfi að bera af störfum eftirlitsaðila. Auk þess sé ósamræmi í gjöldunum eftir landshlutum og sveitarfélögum.