Ef allt gengur að óskum gæti olíuvinnsla hafist árið 2025 hjá Eykon Energy en fyrirtækið stefnir á að bora fyrstu holuna á Drekasvæðinu árið 2020. Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að svæðið sé nú talið allt að tuttugu sinnum áhugaverðara en í upphafi.

Næsta sumar er stefnt að endurvarpsmælingum á svæðinu en þá mun skip draga á eftir sér 10 kílómetra langa kapla. Það tekur til dæmis skipið sólarhring að snúa við til að fá kaplana ekki í skrúfuna, að sögn Heiðars. Þetta ferli tekur mánuð en áætlað var að bora fyrstu holuna árið 2020.

„Við stefnum núna að því að bora þrjár holur því svæðið er einfaldlega meira spennandi. Fyrsta holan 2020, önnur 2022 og þriðja 2023. Við vitum það aldrei með 100% vissu fyrr en við borum hvað er þarna. Með því að bora þrjár holur getum við fengið eitthvað sem er þess virði að fara á eftir en hver hola kostar 150-200 milljónir dollar, sem er svipað eins og ein Harpa.

Heiðar segir að fyrsta holan muni segja ýmislegt. „Munum við finna eitthvað eða þurfum við að bora öðruvísi? Ef við myndum finna eitthvað þá tæki það að minnsta kosti 2-3 ár að undirbúa vinnsluna og ganga frá holunni með ákveðnum hætti. Þá gætum við í fyrsta lagi farið að framleiða olíu eftir 10 ár.“

Heiðar er í ítarlegu viðtali í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kemur út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .