Spá Rannsóknaseturs verslunarinnar er sú að velta í smásöluverslun í nóvember og desember verði um 58,5 milljarðar króna án virðisaukaskatts og aukist þannig á breytilegu verðlagi um 8% milli ára, en þá aukningu má rekja til þess að verðlag hefur hækkað milli ára.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar um jólaverslun en stuðst er við verðbólguspá Seðlabankans en fram kemur að flestar vörutegundir hafa þó hækkað meira en 8% á síðustu 12 mánuðum.

Rannsóknarsetur ætlar að verslun vegna jólanna (velta umfram meðaltal annarra mánaða ársins) verði tæplega 13,4 milljarðar króna fyrir þessi jól. Þannig má ætla að hver Íslendingur verji að meðaltali tæpum 42.000 krónum til innkaupa sem rekja má til árstímans. Í fyrra var þessi upphæð nálægt 38.600 krónum.

„Þó jólainnkaupin verði álíka mikil að magni til og í fyrra verður fleiri krónum varið til innkaupanna vegna þeirra verðhækkana sem hafa átt sér stað,“ segir í skýrslunni en fram kemur að jólaverslun  dróst saman á síðasta ári miðað við árið á undan um 800 milljónir króna en gert er ráð fyrir 4.300 milljóna króna aukningu á þessu ári.

Sjá skýrsluna í heild sinni hér (pdf skjal)