Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, gagnrýnir harðlega hugmyndir fjármálaráðherra um skipulögð slit og uppgjör ÍL-sjóðs með fyrirhugaðri lagasetningu sem er nú í Samráðsgátt. Hann segir aðgerðina myndu skaða orðspor og traust til ríkissjóðs sem lántaka til frambúðar.

„Það traust hefur reyndar þegar beðið hnekki bara með því að viðra hugmyndir um að víkja sér undan skuldbindingum. Í versta falli getur fyrirhuguð lagasetning leitt til margra ára málaferla en ólíklegt er að niðurstaða þeirra verði ríkissjóði í hag,“ segir Gunnar í framhaldsgrein í Morgunblaðinu í dag í kjölfar þeirrar fyrri sem birt var á mánudag.

Bæði sé ábyrgt og skiljanlegt að stjórnvöld skoði allar mögulegar leiðir til að taka á vanda ÍL-sjóðs. Ríkissjóður hafi þegar lagt sjóðnum til um 100 milljarða og áætlar að viðbótarfjárþörf sjóðsins geti verið um 200 milljarðar að núvirði. Að hóta lagabreytingu ef kröfuhafar, sem eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir, ganga ekki að samningsmarkmiðum ríkissjóðs sé þó ekki líkleg leið til árangurs.

„Hvert erum við komin þegar ríkissjóður boðar lagabreytingar til að víkja sér undan skuldbindingum sínum? Hvert erum við komin þegar ríkissjóður, sem á að vera öruggasti skuldarinn á markaðnum, leitar allra leiða til standa ekki við skuldbindingar sínar? Hvaða fordæmi er ríkissjóður að gefa til annarra skuldara? Hver mun treysta ríkissjóði til framtíðar og taka mark á einfaldri ríkisábyrgð á skuldabréfum útgefnum af ríkisfyrirtækjum eða opinberum hlutafélögum? Hver vill eiga viðskipti við aðila sem segir eitt í dag og annað á morgun?“

Í lok febrúar lýsti hópur tuttugu lífeyrissjóða því yfir að ekki væri grundvöllur fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins að óbreyttu þar sem ekki var komið til móts við kröfur þeirra um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins sem eina af grunnforsendum slíkra viðræðna.

„Það er óskandi að menn sjái að sér og byrji málið upp á nýtt með réttu viðhorfi og horfist í augu við skuldbindingu ríkissjóðs. Þá gæti mögulega fundist lausn sem allir aðilar gætu sætt sig við.“

Ríkið vilji 16% afslátt

Meginmarkmið fjármálaráðuneytisins í samningaumleitunum við skuldabréfaeigendur er að uppgjör fari fram miðað við eftirstöðvar með áföllnum verðbótum og vöxtum. Gunnar lýsir því að gangi áformin eftir sé þar með fallið frá ábyrgð á framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs sem reiknað hefur verið með í viðskiptum með skuldabréfin á markaði í gegnum tíðina. Framtíðargjalddögum myndi því fækka og núvirtar greiðslur til skuldabréfaeigenda lækka. Í tilviki lengsta íbúðarbréfaflokksins með lokagjalddaga árið 2024 er mismunurinn um 16%.

Gunnar segir að hugmyndir fjármálaráðuneytisins feli því í raun í sér að afhenda eignir að verðmæti 84 en lífeyrissjóðir og aðrir skuldabréfaeigendur felli niður kröfur að verðmæti 100.

„Til að eigendur skuldabréfanna verði jafnsettir er svo reiknað dæmi um ávöxtun eignasafns, sem er að hluta til í hlutabréfum, og gefin sú forsenda að þannig muni fjárfestar vera jafnvel settir eða ná sambærilegri ávöxtun. Þetta dæmi gengur auðvitað ekki upp, uppgjör verður að vera á markaðsverði, fullt verð þarf að koma fyrir skuldabréfin og taka þarf tillit til áhættu.“

Vísar til góðs fordæmis Icelandair

Í grein sinni vísar Gunnar til þess að eftir fjármálahrunið árið 2008 þurftu mörg fyrirtæki að semja um uppgjör á útgefnum skuldabréfaflokkum. Þessar viðræður hafi yfirleitt verið erfiðar og tekist misvel. Í flestum tilvikum hittu skuldabréfaeigendur ráðgjafa fyrir hönd skuldara sem kynnti afarkosti um uppgjör.

„Undirrituðum eru í fersku minni viðræður við Icelandair þar sem tókst að finna lausn sem var hagstæð fyrir báða aðila. Viðræðurnar hófust á fundi með kröfuhöfum þar sem þáverandi forstjóri og fjármálastjóri mættu í eigin persónu og lýstu því yfir að þeir væru komnir fyrir hönd fyrirtækisins til að standa við skuldbindingar þess. Með þessu var tónninn lagður og í lokin tókst að finna lausn sem gekk út á það að lengja greiðslutíma skuldabréfanna og lækka vexti til framtíðar.“

Segir ríkisábyrgð mjög skýra

Bjarni hefur rökstutt hugmyndir um slit og uppgjör ÍL-sjóðs með vísan til þess að ríkissjóður sé í einfaldri ábyrgð fyrir skuldum hans. Það feli í sér að ríkisábyrgðin verði virk þegar ÍL-sjóður geti ekki staðið í skilum og ríkið verði á þeim tíma að gera upp kröfur ÍL-sjóðs að fullu en uppgjörið taki þó ekki til framtíðarskuldbindinga heldur aðeins höfuðstóls krafna á þeim tíma.

Í fyrri grein sinni lætur Gunnar fylgja með skjáskot af kafla um ríkisábyrgð í útboðslýsingu Íbúðabréfanna, skuldabréfa Íbúðalánasjóðs sem heitir nú ÍL-sjóður, frá árinu 2004.

„Í yfirlýsingunni stendur að ríkisábyrgðin sé óafturkallanleg og taki til núverandi og framtíðarskuldbindinga skuldabréfanna, þar á meðal að greiða afborganir og vexti samkvæmt skilmálum bréfanna. Síðar í yfirlýsingunni kemur fram að lendi ÍL-sjóður í greiðsluvandræðum skuli fyrst ganga á eignir sjóðsins og ef þær duga ekki til að greiða af íbúðabréfunum stofnist bein krafa á ríkissjóð (hefðbundin einföld ábyrgð),“ skrifar Gunnar.

„Yfirlýsingin um ríkisábyrgð er mjög skýr og á grundvelli hennar hafa farið fram viðskipti með skuldabréfin í tæpa tvo áratugi þar sem reiknað er með greiðslum til lokagjalddaga.“

Úr útboðslýsingu Íbúðabréfanna.