Fyrsti áfangi í kaupréttakerfi Arion banka, sem tilkynnt var um fyrir ári síðan, var framkvæmdur á miðvikudaginn í síðustu viku. Allir fastráðnir starfsmenn bankans gátu þar keypt hlutabréf í bankanum á genginu 95,5 krónur á hlut, fyrir að hámarki 600 þúsund krónur.

Hlutabréfaverð Arion hækkaði verulega á síðasta ári og er nú tvöfalt hærra en kaupgengið sem starfsmönnum bankans stóð til boða en það stendur nú í 189,5 krónum á hlut. Því má ætla að allir 628 fastráðnu starfsmenn bankans sem gerðu kaupréttarsamning við bankann hafi hagnast um tæplega 600 þúsund krónur fyrir skatta í fyrsta af fimm áföngum kaupréttaráætlunarinnar

Ef gert er ráð fyrir að gengi Arion haldist óbreytt næstu árin má ætla að hver starfsmaður geti fengið um 3 milljónir króna fyrir skatta í sinn hlut á fimm ára tímabili kaupréttaráætlunarinnar.

Sjá einnig: Gera 1,9 milljarða kaupréttarsamninga

Miðað við 100% nýtingu starfsmanna ná kaupréttarsamningarnir til 3.945.550 hluta árlega til ársins 2026. Að gefni þeirri forsendu munu starfsmennirnir greiða 371 milljón fyrir hlutina í ár en markaðsvirði þeirra er nú tvöfalt hærra og nemur 748 milljónum.*

Á fimm ára tímabili kaupréttaráætlunarinnar má ætla að starfsmennirnir geti alls keypt bréf í bankanum fyrir 1,9 milljarða. Að gefnu óbreyttu gengi bankans og 100% nýtingu starfsmanna mun markaðsvirði þeirra vera um 3,7 milljarðar í lok kaupréttaráætlunarinnar í febrúar 2026.

Selji starfsmenn hlutabréfin innan tveggja ára frá nýtingu kaupréttanna ber þeim að greiða af þeim tekjuskatt líkt og um laun sé að ræða en sé það gert eftir tvö ár er greiddur fjármagnstekjuskattur af söluhagnaði bréfanna.