Miðað við stöðuna í dag munu umsvif hins opinbera í efnahagslífinu aukast mikið og mögulega verða meiri en nokkurn tíma áður, segir í Hagsjá Landsbankans.

„Í umræðunni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar er oft bent á umfang aðgerða, t.d. var sagt að umfang fyrsta aðgerðapakkans væri um 230 milljarðar króna og aðgerðapakka tvö um 60 milljarðar," segir í Hagsjá bankans.

„Auknar samþykktar útgjaldaheimildir ríkissjóðs vegna núverandi aðstæðna nema hins vegar „aðeins“ 39 milljörðum verði ný fjáraukalög í samræmi við frumvarpið. Þetta er um 3,9% aukning miðað við fjárlög. Miðað við þessar tölur yrði halli ársins um 50 milljarðar króna, sem er ekki nálægt þeim halla sem rætt er um að verði á ríkissjóði í ár. Í því sambandi hafa tölur á bilinu 250-300 milljarðar króna verið nefndar.