„Ég vænti þess að það verði viðeigandi á einhverjum tímapunkti síðar í ár að taka fyrsta skrefið í átt að því að hækka stýrivexti og koma peningastefnunni í eðlilegt horf,“ var haft eftir Janet Yellen, seðlabankastjóra bandaríska seðlabankans, í júlí á þessu ári. „En ég vil ítreka það að stefnan í hagkerfinu og verðbólguhorfur eru mjög óljósar enn og ófyrirséðir atburðir gætu annað hvort frestað eða hraðað á þessu fyrsta skrefi,“ sagði hún enn fremur. Klukkan tifar ef hún ætlar að standa við stóru orðin en með fundinum í dag eru aðeins þrír peningastefnufundir eftir á árinu.

Þar sem atvinnuleysi hefur farið minnkandi og efnahagsástandið almennt verið á uppleið vestanhafs hefur frekar verið spurt að því hvenær heldur en hvort stýrivextir hækki í Bandaríkjunum. Sagt var t.a.m. frá því fyrr á árinu að James Bullard, bankastjóri seðlabankans í St. Louis, teldi að vaxtahækkun væri löngu orðin tímabær vegna bættrar atvinnuþátttöku og aukins hagvaxtar og hafa margir tekið undir orð hans. Þar er hins vegar ekki öll sagan sögð. Á meðan atvinnuleysi hefur verið á niðurleið hafa laun á vinnumarkaði ekki hækkað mikið upp á síðkastið. Ástandið í nýmarkaðsríkjum hefur verið mjög sveiflukennt síðastliðna mánuði og eru bandarískir útflytjendur farnir að finna verulega fyrir styrkingu dollars síðustu mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .