*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 22. nóvember 2004 09:46

Hveragerðisbær hækkar útsvarið

fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði hækkar einnig

Ritstjórn

Meirhluti bæjarráðs afgreiddi á fundi sínum fyrir helgi tekjuforsendur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2005. Ef frá eru skildar verðbætur í forsendunum upp á 3,5% eru helstu breytingar frá fyrri árum þær að útsvarsprósenta er nú fullnýtt og hækkar úr 12,99% í 13,03%. Þá hækkar álagning fasteingaskatts á húsnæði í B-flokki (atvinnuhúsnæði) úr 1,41% af fasteignamati í 1.60%. Áætlað er að hækkun útsvarprósentu gefi bæjarsjóði rúmlega 1 milljón króna í tekjuaukningu á næsta ári og að hækkun fasteignagjalda atvinnuhúsnæðis gefi bænum rúmar 2 milljónir í tekjur á næsta ári.

Fulltrúar meirihluta bæjarráðs studdu hækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði út frá þeim forsendum að breytingar á skattaumhverfi hafi á undanförnum árum leitt til mikillar aukningar í stofnun einkahlutafélaga sem aftur hefur leitt til samdráttar í tekjum sveitarfélagsins. Þannig fjölgaði einkahlutafélögum í Hveragerði úr 66 í 111 á árunum 1999-2003. Áhrif þessarar þróunar sjást m.a. í lækkun tekna vegna efirá-álagningar útsvars sem lækka úr rúmum 24 milljónum króna í rúmar 16 milljónir á milli áranna 2002 - 2003.

Fulltrúi minninhluta sat hjá við afgreiðslu bæjarráðs á tekjuforsendunum þar sem hann gat ekki fallist á hækkun fasteingskatts á atvinnuhúsnæði.