Bretar standa sem kunnugt er frammi fyrir orkuþurrð á komandi árum, þar sem áætlun um uppbyggingu kjarnorkuvera frestaðist fyrir nokkrum árum og áhyggjur af loftslagsmálum hafa mjög dregið úr áhuga og þolinmæði á orkuverum, sem brenna jarðefnaeldsneyti. Á sama tíma hefur efnahagsvöxtur verið talsverður og orkuþörf farið vaxandi og fer að verða aðkallandi.

Orkuflutningur á milli landa hefur á undanförnum árum aukist verulega, ekki síst með tilkomu sæstrengja. Nú þegar liggja fyrir áætlanir um lagningu fleiri strengja sem flutt geta orku til (og frá) Bretlandi, t.a.m. til Noregs, Danmerkur, Þýskalands og Hollands. Öllum þessum sæstrengjum er ætlað að flytja rafmagn í báðar áttir. Sem einfalt dæmi má nefna að Noregur selur orku til Bretlands á háu verði á daginn en kaupir orku á lægra verði á næturnar. Jafnframt hafa menn ráðgert ýmsa orkuumsýslu með þessum hætti, þar sem umframrafmagn er flutt til þess að bæta á uppistöðulón í öðrum löndum, sem þá má nota sem eins konar rafhlöðu.

Í skýrslu National Grid, þar sem fjallað er um framtíðarorkuverkefni, kemur hins vegar fram að vegna einstakra eiginleika íslenska orkumarkaðarins sé litið svo á að sæstrengur frá Íslandi myndi þjóna hlutverki rafals (e. generator).  Það þýðir að rafmagn yrði einungis flutt frá Íslandi en ekki til baka, þó að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi.

Einn helsti varnagli sem gagnrýnendur sæstrengs hafa sett hingað til er sá að flutningur á orku til Íslands í gegnum sæstreng myndi hækka orkuverð hér á landi, þar sem selja þarf orkuna á markaðsverði. Fari svo að rafmagn yrði eingöngu flutt frá Íslandi í gegnum sæstreng væri það þá ekki lengur ráðandi þáttur í ákvarðanatökunni.

Mikil áhrif af sæstreng

Yrði það ofan á, myndi að líkindum taka um 5-6 ár að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands, streng sem hefði burði til að flytja um 1.200 MW af raforku yfir djúpa Íslandsála. Sæstrengurinn gæti því mögulega verið fullgerður fyrir árið 2025, en það ár vonast bresk stjórnvöld til þess að geta lokað síðustu kolaorkuverum sínum í takt við loftslagsmarkmið Breta.

Nú liggur ekkert fyrir um hvort af því verður að leggja sæstreng. Hvorki íslensk né bresk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að eiga viðskipti með raforku sín á milli, þó að vissulega hafi málið reglulega verið rætt af ráðamönnum beggja ríkja og þeim fyrirtækjum, sem helst kæmu við sögu. Kæmi til þess má ljóst vera að sæstrengur myndi auka tekjur af orkusölu hér á landi, auka gjaldeyrisflæði til landsins og rjúfa markaðseinangrun raforkumarkaðarins hér á landi.

Í framhaldi af því myndu rekstrarskilyrði stóriðju á Íslandi taka að breytast, þó það tæki sinn tíma vegna þeirra löngu samninga, sem þar eru í gildi. Segja má að stóriðjan hafi verið notuð til orkuútflutnings, en hún getur tæplega keppt við beinan orkuútflutning um sæstreng til lengdar. Áhrif sæstrengs á atvinnulíf gætu því reynst töluverð, en sjálfsagt þykir mörgum ekki síðri ávinningur í umhverfisáhrifum þess að stóriðjan geti vikið. Fyrir nú utan hitt að þannig leysi hrein og endurnýjanleg íslensk orka af hólmi mengandi og óafturkræfa orkugjafa erlendis.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .