Listagalleríin i8 og Hverfisgallerí munu um helgina sýna á MARKET listamessunni í Stokkhólmi núna um helgina. Messan er leiðandi á sínu sviði á Norðurlöndunum en hún er ein af fjölmörgum listamessum í heiminum sem skipta listagallerí höfuðmáli við sölu og eflingu tengsla.

MARKET listamessan er í sameiginlegri eigu sex gallería en tvö þeirra eru sænsk, eitt norskt, eitt finnskt, eitt danskt og eitt íslenskt gallerí, i8. i8 hefur tekið þátt frá upphafi hátíðarinnar sem nú er haldin í tíunda sinn en Hverfisgallerí tekur þátt í annað skiptið þrátt fyrir að hafa aðeins verið starfandi í tvö ár. Langur biðlisti er fyrir þátttöku listagallería á messunni en hún heimilar aðeins galleríum frá Svíþjóð, Danmörku, Íslandi og Finnlandi.

Listamessur orðnar mjög mikilvægar

Að sögn Aldísar Snorradóttur, einnar þriggja framkvæmdastjóra Hverfisgallerís, vonast hún til þess á messunni að ná góðum tengslum við erlenda safnara, önnur gallerí og söfn auk þess að sjá það nýjasta í straumum og stefnum hjá nágrannaþjóðunum.

„Listamessur eru orðnar mjög mikilvægar í starfsemi gallería almennt en þar fara stóru kaupin oft fram og mikilvægar tengingar eiga sér stað," segir Aldís. „Fyrir Hverfisgallerí eru messur sem þessar nauðsynlegar til að efla tengslanet erlendis. Íslenskur markaður er lítill og auðmettur svo okkur finnst mikilvægt að stefna strax á erlend mið til að auka veg og vanda þeirra listamanna sem við vinnum með. Með því að auka sýnileika á okkar listafólki á erlendri grundu vonumst við einnig til að áhugi á íslenskri myndlist muni aukast almennt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .