Þau tíðindi hafa nú borist frá Hagstofu Íslands að Hvergerðingar hafi náð þeim merka áfanga að teljast vera á þriðja þúsund, en þjóðskráin sýnir 2007 íbúa skráða til heimilis í bæjarfélaginu. Orri Hlöðversson, bæjarstjóri, kveðst afar ánægður með útkomuna í ár, enda um 6% fjölgun að ræða frá síðustu áramótum sem hlýtur að vera ein allra mesta hlutfallslega fjölgunin í einu sveitarfélagi á Íslandi árið 2004.

Þetta kemur fram í frétta á heimasíðu Hveragerðis. Þar er enn fremur haft eftir Orrar að þessi fjölgun sé bein afleiðing þess mikla krafts sem ríkt hefur í uppbyggingu bæjarfélagsins undanfarin ár bæði á vegum bæjarfélagsins og einkaaðila. Hann segir fasteignamarkað mjög líflegan, eftirspurn mikla og að verð hafi stigið mjög hratt undanfarna mánuði. Mikið af íbúðarhúsnæði sé í byggingu og í vetur verða miklar framkvæmdir í gatnagerð sem leysa munu lóðaskort sem verið hefur í bæjarfélaginu undanfarna mánuði. Eftirspurnin eftir lóðum er mikil og því ekkert sem bendir til annars en vöxturinn haldi áfram í Hveragerði á næstu misserum.

Auglýstar hafa verið lausar til úthlutunar Hveragerði 69 lóðir fyrir raðhús, parhús og einbýlishús í vesturhluta bæjarins í nýju hverfi sem þar er að rísa. Engar lóðir hafa verið lausar undanfarið í bænum og mæta umræddar lóðir brýnni þörf og gríðarlega mikilli eftirspurn sem verið hefur undanfarna mánuði.