Mikil fjölgun íbúa hefur átt sér stað í Hveragerði síðustu mánuði. Eftir óverulega fjölgun á síðasta ári hefur íbúaþróunin heldur betur tekið kipp og samkvæmt þjóðskrá eru þeir nú 1973 að tölu. Hefur þeim því fjölgað um 89 síðan um síðustu áramót sem verður að teljast mikið í ekki stærra bæjarfélagi en hér um ræðir og með sama áframhaldi nálgast 2000 íbúa markið óðfluga.

Orri Hlöðversson, bæjarstjóri í Hveragerði, segir í frétt inni á heimasíðu Hveragerðis að þessar tölur endurspegli þá eftirspurn sem verið hefur húsnæði og lóðum í bæjarfélaginu undanfarin misseri. Mikið af húsnæði sé í byggingu og eftirspurn eftir lóðum mikil. Staðan í lóðamálum er t.d. þannig í augnablikinu að engar lóðir eru lausar til úthlutunar í bænum en nú sé unnið að því að tryggja nægt framboð þeirra á næstu mánuðum. Hliðstæð þróun hefur átt sér stað í Árborg sem telur nú 6430 íbúa samkvæmt þjóðskránni og hefur Árborgurum því fjölgað um 259 frá áramótum. Óveruleg fækkun hefur átt sér stað í Ölfusi á sama tímabili, en íbúar þar eru nú 1680.