Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur tilkynnt að hún muni hefja birtingu á listum yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga á ný, en fyrirtækið ákvað að hætta birtingunni sem löng hefð er fyrir hér á landi í júlí í fyrra. Ástæðan var sú að Nasdaq taldi álitamál hvort framkvæmdin stæðist ný persónuverndarlög sem þá tóku gildi og leitaði því álits persónuverndar sem hefur nú veitt jákvæða umsögn.

Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla, hjá Nasdaq segir birtingu listanna eiga sér sögulegar skýringar, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um vinnur félagið nú að því að fá umboð frá skráðum félögum í kauphöllinni fyrir birtingu listanna.

„Við skerum okkur úr um þetta, þetta er hvergi gert nema hér á Íslandi. Listarnir komu inn áður en regluverk um flagganir og innherjatilkynningar komu til en þær gilda víðast hvar. En þótt þær eigi einungis við um aðila sem eiga yfir 5% hlut, þá ganga þær vissulega lengra, því horft er í gegnum eignarhaldsfélög og aðra óbeina eignaraðild í gegnum til dæmis mörg félög. Þannig geta aðilar sloppið við að koma inn á 20 stærstu listann, en þurfa samt að flagga,“ segi Baldur.

Baldur segir vissulega gagnlegt fyrir fjárfesta að fá upplýsingar um stærstu eigendurna. „Við höfum fengið það mjög sterkt frá aðilum á markaði að þeir kunna að meta að hafa þær og því gott að geta orðið við því aftur. Á hinn bóginn hafa þau sjónarmið líka heyrst að það geti skemmt fyrir fjárfestum sem vilja stækka eða minnka við sig að birtast inn á svona listum.“

Verið er að útfæra hvernig birtingu listanna verði hagað, en á sínum tíma voru þeir birtir mánaðarlega sem og að áskrifendur fengu vikulegan póst yfir stöðuna. Baldur segir að ekki væri víst að ef verið væri að opna verðbréfamarkaðinn hér á landi í dag að svona listar væru birtir.

„Að mörgu leyti eru upplýsingarnar skýrari í dag, og áreiðanlegri, en þegar maður var að grúska í þessum upplýsingum hér áður, sérstaklega fyrir hrun. Þá var svo mikið af eignarhaldi í gegnum safnreikninga og eignarhaldsfélög að það var í raun ekkert hægt að lesa út úr þeim nema með flöggunartilkynningarnar við hliðina.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .