Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að nýtt álit matsfyrirtækisins Moody's væri mjög jákvætt varðandi stöðu ríkissjóðs og efnahagsástandið hér. Hann tók fram að hvergi stæði í álitinu að best væri að íslensku bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. "Það stendur ekki í þessu áliti; hvorki mælt með því né hvatt til þess," sagði hann.

Þetta kom fram í svari Geirs við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Illugi tók fram eins og Geir að hvergi væri í álitinu mælt með því að bankarnir flyttu starfsemi sína úr landi.

Geir sagði að aðalatriðið í skýrslunni væri að efnahagsaðstæður hér væru með þeim hætti að ekki væri nein sérstök hætta á ferðum. Jafnvel þótt kæmi til alvarlegrar fjármálakreppu - sem þó væri talin ólíkleg.