Hlutfall landsmanna sem er undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun var tvöfalt hærra í ríkjum Evrópusambandsins en á Íslandi á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar .

Á Íslandi var hlutfallið 12,7% en 25% meðal íbúa Evrópusambandsins. Hlutfallið í Noregi var næst lægst og þar á eftir var Holland. Þau lönd þar sem íbúar voru helst fyrir neðan lágtekjumörk eða í félagslegri einangrun voru Búlgaría, Rúmenía og Lettland. Mælingin byggir á þremur þáttum: heimilistekjum, vinnuþátttöku heimilismanna og hvað heimilin geta leyft sér af efnislegum gæðum.

Ef litið er eingöngu á þá sem voru fyrir neðan lágtekjumörk var hlutfallið einnig lægst á Íslandi, 7,9% en 17,1% innan Evrópusambandsins. Tékkland var með næst lægsta lágtekjuhlutfallið og þar á eftir komu Noregur og Holland. Lágtekjumörk skilgreinast sem 60% af miðgildistekjum í hverju landi.

Þegar aðrir mælikvarðar á tekjudreifingu eru skoðaðir var Ísland með þriðja mesta jöfnuðinn meðal Evrópuþjóða árið 2012. Gini-stuðullinn á Íslandi var 24 en 30,5 innan Evrópusambandsins. Lægstur var Gini-stuðullinn í Noregi, 22,6 og Slóveníu, 23,7. Stuðullinn væri 0 ef allir hefðu jafnar tekjur en 100 ef allar tekjur tilheyrðu sama einstaklingnum.