Mannkynið stendur á þröskuldi gríðarlegra tæknibreytinga. Fjórða iðnbyltingin er að breyta heiminum. Tölvutæknin er komin á nýtt og áður óþekkt stig og hraði breytinganna er slíkur að útilokað er að spá fyrir um það hvert þær munu leiða okkur. En hverjir munu framleiða þessi tæki og tól og hvað felst í þessari tækni?

Hugtakið fjórða iðnbyltingin komst fyrst í almenna notkun árið 2016 eftir að Klaus Schwab, stjórnarformaður Alþjóðaefnahagsráðsins, gaf út samnefnda bók: The Fourth Industrial Revolution. Viðskiptaráðstefnan í Davos í Sviss var svo tileinkuð þessu hugtaki sama ár og bókin kom út. Síðan þá hefur það verið samheiti yfir tækniframfarir samtímans.

Hvað felst í tækninni?

Áður en haldið er lengra, er rétt að skilgreina þessi þrjú fyrirbæri þ.e. gervigreind, róbótatækni og internet hlutanna.

Í tölvunarfræði er gervigreind rannsóknarsvið þar sem leitast er við að þróa aðferðir sem gera tölvum kleift að skilja upplýsingar og nota þær til að taka ákvarðanir. Með öðrum orðum, gervigreind er í raun ekki forrituð fyrir fram heldur lærir hún með því að greina gögn, ekkert ósvipað mannfólkinu.

Hugtakið róbótatækni er ef til vill nokkuð lýsandi. Með hugtakinu er átt við tæknina sem einkennir róbóta. Róbótar geta tekið á sig mismunandi myndir. Sumir eru fastir, en aðrir eru færanlegir. Róbótar skynja orðið umhverfi sitt, hafa sjón og geta þekkt hluti. Þeir hafa heyrn og því er jafnvel hægt að tala við þá.

Með interneti hlutanna er svo átt við samþættingu tækja og hugbúnaðar tengda netinu, sem geta miðlað og greint gögn og upplýsingar. Slík kerfi hafa það að markmiði að umbreyta rafrænum rafrænum upplýsingum úr vistkerfinu svo hægt sé að bæta lífsgæði, auka skilvirkni, skapa verðmæti og draga úr kostnaði. Þetta geta verið hlutir á borð við ísskápa, síma, snjallúr og svo framvegis.

Gervigreind

Ýmis fyrirtæki, stór og smá, keppa á ólíkum sviðum þegar kemur að gervigreind. Þó er óhætt að fullyrða um að breska fyrirtækið DeepMind Technologies sé meðal þeirra sem eru fremst í flokki á þessu sviði. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 af þeim Demis Hassabis, Shane Legg og Mustafa Suleyman. Árið 2014 keypti Google fyrirtækið á 500 milljónir dollara og því er um að ræða dótturfyrirtæki Alphabet Inc.

Nú starfa um 700 sérfræðingar hjá DeepMind, en markmiðið er að nota bestu tækni sem völ er á til þess að þróa gervigreind. Það má því segja að starfsemi fyrirtækisins miði aðallega að rannsóknum. Lausnirnar verður hægt að nota í margvíslegum tilgangi. DeepMind hefur sýnt fram á það og náð að vekja mikla athygli á heimsvísu. Fyrirtækið hefur meira að segja undirritað samning við bresk heilbrigðisyfirvöld.

Það sem hefur þó fengið mesta umfjöllun í fjölmiðlum er AlphaGo, en lausninni tókst að sigra Evrópumeistarann og síðar meir heimsmeistarann í asíska borðspilinu Go. Spilið er þekkt fyrir að vera taktískt flókið, þó svo að reglurnar séu nokkuð einfaldar. Því sem ekki má gleyma er að tölvan lærði í raun alveg sjálf á leikinn. Fyrirtækinu hefur einnig tekist að sigra allar helstu skáktölvur heimsins með AlphaZero.

Það gefur því auga leið að máttur tækninnar er mikill. Facebook, OpenAI, Baidu, Microsoft, Apple og IBM vinna nú öll að gervigreindarlausnum. Sumar lausnir eru hugsaðar fyrir fyrirtæki, önnur fyrir opinbera geirann, en gervigreind á líka að fá aukið hlutverk á heimilum fólks. Með þessu áframhaldi geta margir eflaust hætt að hugsa.

Nánar er fjallað um málið í Fjórðu iðnbyltingunni , nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins.