*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 11. desember 2016 17:02

Fór á hverju kvöldi á Airwaves

Miceal Nevin, nýr sendiherra Bretlands á Íslandi hefur verið duglegur að kynna sér íslenska menningu og dægurlíf.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Michael Nevin tók við sem sendiherra Bretlands á Íslandi fyrir nákvæmlega þremur mánuðum en síðustu tvær stöður hans í voru í Afríkulöndunum Malaví og Kenýa. Veðurfarið á Íslandi segir hann þó ekki vera ólíkt því sem hann eigi að venjast.

Er frá Norður-Írlandi

„Þó að málefni landanna séu ólík, þá er ég frá Norður-Írlandi, sem ekki er það ólíkt Íslandi. Ég hef verið í Sádi Arabíu í skamman tíma, einnig var ég stuttlega hjá Sameinuðu þjóðunum og í Japan kynntist ég konu minni sem er japönsk. Ég hef því ferðast víða fyrir utanríkisþjónustuna, þó ekki til allra álfa heimsins,“ segir Nevin sem fluttist til Manchester til að fara í háskólanám en hann er dyggur stuðningsmaður United.

„Ég ólst upp meðan óöld ríkti á Norður-Írlandi, en fór þegar ég var átján ára í Háskólann í Manchester. Ég vildi yfirgefa Norður-Írland líkt og margir jafnaldrar mínir. Á þessum tíma var erfitt að fara í bæinn, alls staðar öryggiseftirlit, sprengjuhótanir og annað sem var mjög takmarkandi fyrir ungt fólk, en ég held að mjög margir af minni kynslóð hafi snúið aftur í kjölfar friðarferlisins enda hafa aðstæður þar batnað verulega.“

Hissa á hve seint varð bjart

Þótt Nevin hafi farið snemma frá Norður-Írlandi hjálpar bakgrunnur hans honum stundum að skilja aðstæðurnar víða um heim. „Ég held að hvar sem maður sé í heiminum og upplifi mismunun, byggða á uppruna, kynþætti eða jafnvel á trúarlegum grunni, þá hjálpi þetta mér kannski að skilja áróðurinn en einnig að hluta til þann ótta sem liggur á bak við þessa skiptingu,“ segir Nevin sem nú er ánægður með að vera kominn í íslensku rólegheitin.

„Þegar ég fékk starfið var ekki búið að kjósa um að ganga úr ESB svo það kryddaði eilítið upp á starfið og svo er áhugavert að fylgjast með ykkar eigin kosningum og hvað kemur út úr þeim. Ég hafði heimsótt landið um áramót árið 2007, en við þekktum íslenska fjölskyldu hér og ég mundi hve hissa ég varð á því að það skyldi ekki verða bjart fyrr en um hálftólf leytið.“

Landið vaxið síðan 2007

Nevin segist taka eftir töluverðum mun frá þeim tíma því honum finnist eins og landið og borgin hafi vaxið töluvert.

„Augljóslega eru miklu fleiri ferðamenn, en það er líka eins og landið sé mun meira áberandi. Kannski er það bara vegna þess að þegar maður er á leiðinni eitthvert tekur maður betur eftir því, en Ísland virðist koma oftar fyrir í fjölmiðlum, bæði í Bretlandi og út um heim allan. Justin Bieber sýnir landið í myndböndum sínum og svo var það auðvitað sigur ykkar gegn enska landsliðinu,“ segir Nevin sem staddur var í flugi á leið til Bretlands meðan á leiknum stóð.

„Þegar ég lenti sá ég eins orðs fyrirsögn í bresku dagblaði sem sagði allt sem segja þurfti. England hafði tapað, enda stóð þar Skömm eða eitthvað álíka.“

Ánægður með árangur sinna manna

Sendiherrann fylgdist með sínu landsliði í keppninni af sama ákafa og íslenska þjóðin með sínu.

„Þó að ég sé sendiherra Bretlands, þá eru fjögur landslið í sameinaða konungdæmi Bretlands, og verandi frá Norður-Írlandi þá fylgdist ég með mínu landsliði þaðan,“ segir Nevin.

„Við vorum eins og þið, höfðum frábærar hetjur sem líkt og þið voru bara ánægðar með að vera þarna, og líkt og ykkar lið komst það upp úr riðlinum svo að þótt ég styðji einnig enska liðið þá var gott að geta stutt Norður Írland. Svo var auðvitað Wales líka að gera góða hluti.“

Litu hvort á annað í miðjum þætti af Ófærð

Nevin hefur ásamt konu sinni verið duglegur að kynna sér íslenska menningu og dægurlíf.

„Þegar við heyrðum að við vorum á leiðinni hingað var mælt með því við okkur að við myndum horfa á Ófærð. Við byrjuðum að horfa en eftir 20 mínútur litum við hvort á annað og spurðum okkur forviða hvort þetta væri það sem við værum að fara út í. En þetta er auðvitað skáldskapur sem gerist enn lengra í norður, en þetta var gott efni. Ég er einnig að reyna að lesa Sjálfstætt fólk, þó það gangi hægt,“ segir Michael Nevin sem hefur meiri áhuga á íslenskum glæpasögum.

„Við höfum haft mikinn áhuga á norrænum glæpasögum eins og Brúnni og fleirum svo það var gaman að bæta við íslenskum sögum. Fyrir nokkrum vikum fórum við á íslensku glæpasagnahátíðina, en þangað kom til að mynda skoskur glæpasagnarithöfundurinn Val McDermid, en við hjálpuðum aðeins til með það. Einnig var gaman að hitta rithöfunda eins og Ragnar Jónasson en bækur hans hafa verið þýddar yfir á ensku og seldar víða í Bretlandi.“

Íslendingur í Swansea einn besti leikmaður tímabilsins

Ýmiss konar menningarleg samskipti landanna tveggja eru Nevin hugleikin, án þess þó að hann telji nauðsynlegt að ríkið komi að því öllu.

„Flest af því flæðir sjálfkrafa, fótboltinn hjá okkur dregur til að mynda til sín íslenska leikmenn. Ég held að Swansea hafi einn slíkan, sem breskur álitsgjafi lýsti sem einum af besta leikmanni tímabilsins. Íslendingar fylgjast með breskum fótbolta, horfa á breskt sjónvarpsefni, þeir fara til Bretlands í nám, en á sama tíma trúi ég því að þið búið við mikla menningu hér á landi, allt frá styttum út um alla borg yfir í sinfóníuhljómsveitir, listaverk og hönnun, sem og tónlistarhátíðir eins og Airwaves,“ segir Nevin en hann var duglegur að sækja viðburði hátíðarinnar.

„Ég fór á hverju kvöldi og það gekk nánast fram af mér dauðum, en þetta var svo frábær upplifun. Þarna voru líka margar breskar hljómsveitir og svo talaði kona mín við eina af hljómsveitunum sem hún ætlar að reyna að aðstoða við að komast aðeins betur inn á japanska markaðinn.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.