Hollenska ríkisstjórnin hefur nú skorið upp herör gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Stefnt er að því að árið 20120 verði losunin um 30% minni en hún var árið 2013. Kýr framleiða metangas þegar þær ropa en gasið er mengandi fyrir umhverfið og hefur meðal annars 25 sinnum meiri hitamyndandi áhrif á jörðina en sambærilegt magn koltvísýrings. Þetta kemur fram á vef Landssambands kúabænda.

Þar er greint frá því að liður í þessu átaki hollensku ríkisstjórnarinnar sé að fá kýr til að ropa minna og hafa hollenskir vísindamenn fengið það verkefni til úrlausnar.

„Hvernig þeir ætla að gera það er svolítið óljóst enn sem komið er en bæði er horft til áhrifa mismunandi fóðurefna á framleiðslu metangassins en einnig hvort erfðir hafi þarna áhrif einnig," segir á vef samtakanna.  „Þá er horft til samsetningar örvera í vömb mjólkurkúnna og hvort breyta megi hlutfalli þeirra í þágu minni framleiðslu metangass án þess að það hafi áhrif á afurðasemi kúnna. Vísindafólk í öðrum löndum fylgjast náið með starfinu, enda ljóst að ef þetta tekst hjá hinum hollensku fræðimönnum þá verður vandræðalítið að yfirfæra þá þekkingu til annarra landa í heiminum."