Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði þá hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka
© BIG (VB MYND/BIG)

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Hvernig var árið?

Þrátt fyrir að hagkerfið tók að rísa á ný í upphafi árs þá einkenndist árið í heild af tímabili stöðnunar og óvissu. Mun hægar hefur gengið að koma fjárfestingu af stað en vonir stóðu til. Fyrstu skref til afnáms gjaldeyrishafta voru tekin á árinu. Því miður reyndust þau skref misvel heppnuð.

Hvað var vel gert?

Á ári sem fátt virðist hafa gengið upp þá opnuðust þó lánsfjármarkaðir fyrir íslenska ríkið á erlendri grund. Þá bendir skuldatryggingarálag á markaði til þess að fjárfestar hafi meiri trú á íslenska ríkinu en á mörgum stærri ríkjum í Evrópu sem berjast enn í bökkum við afleiðingar hrunsins.

Hvað var slæmt?

Það sem stendur upp úr eru innistæðulausir kjarasamningar sem gerðir voru á sama tíma og talsverður slaki var í hagkerfinu og fátt í hendi til að gefa vonir um að forsendur samninganna myndu halda. Einnig ber að nefna ótímabæra vaxtahækkun Seðlabankans sem draga mun enn frekar úr efnahagsbatanum.

Hvað viltu sjá á nýju ári

Mikilvægt er að allri óvissu verði eytt hvort sem horft er til fiskveiðistjórnunarkerfisins eða framtíð peningastefnunnar. Þá er forsenda þess að við sjáum sjálfbæran hagvöxt á ný að fjárfesting komist í gang. Miklu máli skiptir fyrir efnahagslífið að virkur hlutabréfamarkaður starfi hér. Ég bind vonir við að fleiri nýskráningar líti dagsins ljós nýju ári.


Fleiri ummæli má sjá í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á milli jóla- og nýárs.