Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, spurningum blaðsins.

Hvernig var árið? Árið hefur heilt yfir litið verið tiltölulega tíðindalítið, sér í lagi ef það er borið saman við síðustu ár. Fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja hefur miðað nokkuð áfram. Bankakerfið er einnig orðið heilbrigðara eins og afkomutölur og fjölmargir mælikvarðar sýna. Lífeyrissjóðir hafa verið áberandi við endurskipulagningu á eignarhaldi fyrirtækja og endurfjármögnun þeirra. Ef ég horfi til rekstrar Stefnis þá hefur árið einkennst af auknum umsvifum og fjölbreyttari verkefnum.

Hvað var vel gert? Það sem hefur verið hvað jákvæðast er uppgangur í ferðamannaþjónustu og góður rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Sjávarútvegurinn hefur notið góðs af auknum aflaheimildum og háu afurðaverði. Einnig hefur verið ánægjulegt að sjá að atvinnuleysi hefur farið hratt lækkandi; skýringar á því eru nokkrar, en engu að síður ber þróunin vott um að vinnumarkaður hér á landi er sveigjanlegri en í mörgum öðrum Evrópuríkjum.

Hvað var slæmt? Áhyggjum veldur sú mikla skuldsetning sem blasir við í öllum helstu geirum; hjá fyrirtækjum, heimilum, sveitarfélögum og ríki. Þessi mikla skuldsetning hamlar jafnt nýfjárfestingu og takmarkar bata í eftirspurn. Lausnin við þessar aðstæður hlýtur að felast í erlendri fjárfestingu í atvinnulífi, en sú fjárfesting hefur einfaldlega ekki skilað sér. Gjaldeyrishöftin hafa hér örugglega mikið að segja, en ekki er sjá að menn séu nokkru nær við að aflétta þeim.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Helst af öllu vildi ég sjá að landið tæki upp trúverðugan gjaldmiðil. Þar sem það virðist ekki í kortunum vildi ég gjarnan sjá ákveðin og markviss skref til þess að losa um gjaldeyrishöftin. Stærsta skrefið hlýtur að vera að ákveða hvernig haga eigi uppgjöri á föllnu bönkunum.Einnig er hægt að gera sér vonir um að á nýju ári taki innlendur hlutabréfamarkaður ákveðin skref fram á við með auknum fjölda nýskráninga í kauphöll. Að lokum skiptir það þjóðfélagið og efnahaginn miklu máli að ekki komi til stjórnmálakreppu í kjölfar alþingiskosninga í vor.