Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Árið hjá mér og mínum var gott í alla staði. Efnahagslega var árið þó slæmt fyrir heimsbyggðina. Árið leið án þess að nokkur árangur næðist í að semja niður skuldir í heiminum heldur var áfram breytt yfir vandann með innistæðulausri peningaprentun. Vandinn vex bara með tímanum. Viðskiptalega hjá mér stóðu uppúr viðræður EYKON, þar sem ég er formaður stjórnar, við eitt stærsta olíuleitarfyrirtæki Evrópu sem vonandi skilar sér í leit á Drekasvæðinu.

Hvað var vel gert? Átak einkaaðila í að koma í veg fyrir undirritun nauðasamninga gömlu bankanna sparaði þjóðarbúinu hundruðir milljarða en fer fram hjá flestum. Slysum sem er forðað telja ekki með í hagtölum.

Hvað var slæmt? Hagtölur Seðlabanka Íslands eru með því lélegra sem sést. Að Seðlabankinn sé algerlega ófær um að spá fyrir um framtíðina má hugsanlega fyrirgefa. En að Seðlabankastjóri haldi því fram að skuldastaða við útlönd sé "á bilinu hálf til ein Þjóðarframleiðsla" er allt annað en fagmennska. Ég skrifað grein í síðasta áramótablað ykkar um þetta en sé ástæðu til að nefna þetta aftur því að viðurkenna ekki mistök er verra en að gera þau.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég vil að stjórnmálamenn viðurkenni vandann sem þeim er á höndum og komi með raunhæfar leiðir til úrlausna. Þetta er auðvitað óraunhæft en framtíðin væri glötuð án bjartsýni.