Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka .

Hvernig var árið? Þetta var um margt gott ár. Ég held við getum verið sátt við árið 2012 því þetta var í mínum huga árið þar sem við byrjuðum að sjá uppskeru erfiðis undangenginna ára. Óvissuþáttum í okkar efnahagsumhverfi fækkar hægt og rólega, sem er afar mikilvægt. Mín tilfinning er að við getum horft fram á veginn af meiri bjartsýni en áður.

Hvað var vel gert? Startup Reykjavík verkefnið sem við hjá Arion banka réðumst í síðastliðið sumar ásamt Innovit og Klak tókst einstaklega vel. Við fjárfestum í 10 frumkvöðlaverkefnum, veittum þeim aðstöðu og aðstoð frá fjölda mentora til að þróa sínar viðskiptahugmyndir. Þarna voru áhugaverð verkefni á ferð sem við munum örugglega heyra meira af. Þetta fyrirkomulag gafst það vel að til stendur að endurtaka leikinn á nýju ári.

Hvað var slæmt? Ég hefði viljað sjá dregið enn frekar úr þeirri pólitísku, laga- og skattalegu óvissu sem hefur umlukið sumar af okkar helstu atvinnugreinum undanfarin misseri. Því það mikilvægasta fyrir íslenskt efnahagslíf nú er að fjárfesting aukist og til að það geti gerst þarf að vera til staðar stöðugleiki eða öllu heldur fyrirsjáanleiki hvað varðar framtíð okkar helstu atvinnugreina.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég held að árið 2013 verði okkur enn betra en árið sem er að líða. Ég vona að við sjáum fjárfestingu taka við sér og áframhaldandi þróun hlutabréfamarkaðarins, sem eru nauðsynlegir hvatar fyrir atvinnulífið. En það bíða okkar vissulega ýmsar áskoranir, sú helsta er gjaldeyrishöftin. Það væri óskandi að við næðum góðum skrefum í þá átt að aflétta þeim. Það verður ekki auðsótt né er augljóst með hvaða hætti það gæti gerst. En það er klárt að þetta er okkar brýnasta verkefni.